143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum nefndarálit hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu um Íbúðalánasjóð. Það hefur verið bent á mjög margt í þeirri skýrslu og hún verið gagnrýnd nokkuð víða.

Ég tók þátt í þessum fundum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem ég er hluti af. Þeir voru mjög vandræðalegir vegna þess að þangað kom fólk sem hafði verið borið þungum sökum og skrifaði varnarbréf og mætti á fundina og reyndi að verja sig. Ég hafði oft á tíðum þá tilfinningu að þetta væru allt að því réttarhöld þar sem ég væri kominn í dómarasæti í staðinn fyrir að vera á löggjafarsamkundunni og ætti að dæma hvað væri rétt eða rangt í þessum ásökunum. Það finnst mér ekki nógu gott. Þetta er ekki nógu gott. Fólkið fékk ekki sama vettvang til að verja sig og vettvanginn þar sem það var borið sökum. Það er grundvöllur í réttlátu réttarkerfi og í dómsal að menn fái réttláta dómsniðurstöðu þannig að þeir geti varið sig á sama stað og þá með verjanda.

Þetta er meginljóðurinn á þessari skýrslu, sem er annars mjög góð — sem er annars mjög góð, herra forseti. Hún líður mikið fyrir þetta. Ég held að við hv. þingmenn sem settum lög um rannsóknarskýrslur verðum að gera tvennt; við verðum að breyta þeim lögum þannig að þeir sem eru bornir sökum eða minnst er á í skýrslunni, öll fyrirtæki og einstaklingar sem minnst er á í skýrslunni fái andmælarétt á sama stað, þ.e. þeirra verði getið í skýrslunni og þeir geti komið með andmæli sín á sama stað og þau verði birt með skýrslunum. Svo þurfum við að koma með kostnaðarmat á skýrslunum. Ég held að af fenginni reynslu sé það mjög brýnt og reyna verður að halda kostnaðarmatinu til streitu.

Það mikið talað um pólitík í skýrslunni. Það er þannig að Íbúðalánasjóður er ríkisfyrirtæki, rétt eins og Ríkisútvarpið og fjöldinn allur af fyrirtækjum. Það vill svo til að ríkinu er stjórnað af pólitík. Hverjir stjórna ríkinu? Það eru hv. þingmenn sem eru kosnir af flokkum og kosnir í flokka sem flokksmenn og afleiðingin er sú að slíkum fyrirtækjum hlýtur alltaf að vera stjórnað af pólitík. Ég get ekki séð hvernig menn ætla að komast fram hjá því. Menn reyndu það með Ríkisútvarpið, þá breyta menn lögum af því Alþingi hefur líka heimild til þess. Ég get ekki séð hvernig er hægt að ásaka menn um pólitík í slíkri stjórnun, menn verða að átta sig á því að þetta var ríkisfyrirtæki.

Það sem ég ætla að gera að umræðuefni er stóra tapið. Það vill svo til að ég hélt ræðu árið 2004 og ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr henni. Ég hélt hana 4. nóvember 2004, fyrir nærri 10 árum. Ég sagði, með leyfi herra forseta:

„Í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki minnst einu orði á þær gífurlegu skuldbindingar sem gætu myndast hjá Íbúðalánasjóði ef vextir í landinu lækkuðu nú almennilega mikið, ef raunvextir færu niður í 2%. Þá væri Íbúðalánasjóður með feiknarlegar skuldbindingar, hundruð milljarða í lánum sem eru með föstum vöxtum sem honum ber að greiða og eru með ríkisábyrgð. Þetta hefur ekki verið rætt og þetta kemur ekki fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, en gæti skipt milljörðum eða milljarðatugum ef vextir í landinu lækka, og ég sakna þess í umsögn fjármálaráðuneytisins að sú áhætta sé ekki til staðar.“

Það er ekki minnst á hana.

Þetta sagði ég árið 2004 og benti á að þarna væri mikil vaxtaáhætta. Þá var mér sagt, herra forseti, að vextir á Íslandi færu aldrei niður í 2% og þeir gerðu það ekki lengi vel.

Síðan gerist það að íslenskir bankar fá matið AAA hjá bandarískum matsfyrirtækjum, sem ég skildi aldrei. Þeir fengu lán út um allan heim með góðum og lágum vöxtum og hingað streymdu gífurlegir fjármunir erlendis frá, m.a. út af vaxtaskiptamuninum þar sem fólk út um alla Evrópu tók lán í Japan með 4% vöxtum og lagði inn á innlánsreikninga á Íslandi með 11–12% vöxtum og tappaði af á hverju ári en tók gengisáhættu og töpuðu margir hverjir óhemju miklu þegar gengið féll eftir hrun.

Þetta er ein ástæðan fyrir því að vextir lækkuðu hérna og bankarnir fóru í samkeppni við ríkið, enda voru bankarnir þrír komnir með sama mat og ríkið hjá matsfyrirtækjunum, komnir í ágætisstöðu til að keppa við ríkið, þ.e. Íbúðalánasjóð, á lánamarkaði. Og það gerðu þeir og með miklum bravúr og það urðu miklar inngreiðslur hjá Íbúðalánasjóði. Í staðinn fyrir að kaupa upp eigin bréf, sem bent er á í skýrslunni, brugðu þeir á það ráð í vandræðum sínum að fara að vinna með bönkunum, það voru hin svokölluðu hattalán. Þetta var mjög undarlegt og ég gagnrýndi það á sínum tíma og ég hélt líka ræðu um hattalánin einhverjum árum seinna, um að þar væri verið að veita fé með ríkisábyrgð til kaupa á bílum eða sumarbústöðum eða slíks án takmarkana um lánsupphæð en í raun með fé Íbúðalánasjóðs með ríkisábyrgð.

Þetta er ástæðan fyrir því að Íbúðalánasjóður lenti í þessum mikla vanda. Eftir hrun gerist það svo að hér situr eftir á Íslandi hin svokallaða snjóhengja sem er ástæðan fyrir gjaldeyrishöftunum og það eru hundruð milljarða kr. í eigu erlendra aðila sem situr eftir af þessum darraðardansi sem var 2006 og 2007 og þeirri miklu útrás sem farið var í. Þeir peningar, þær krónur, hundruð milljarða, keppa við fátæklegt lánsfé og við lífeyrissjóðina sem geta ekki farið neitt til útlanda. Þess vegna hafa raunvextir lækkað niður fyrir 2%, eins og ég gat um árið 2004 og enginn trúði að gæti nokkurn tímann gerst á Íslandi. Þetta er ástæðan fyrir því að Íbúðalánasjóður er í feiknarlegum vanda, vegna lækkandi vaxta.

Þetta er því bæði vandi fyrir hrun við innstreymi erlends fjármagns til banka sem voru með AAA-mat og eftir hrun þegar menn sitja uppi með gífurlegar krónueignir sem ekki geta farið til útlanda. Einhvern tímann þarf að brenna þær krónur. Þetta er ástæðan.

Mér finnst skýrslan líða fyrir það að í henni er farið í persónulegar ávirðingar. Ef hún hefði verið málefnalegri, ef menn hefðu fengið andmælarétt, ef þetta hefði verið lágstemmdara gagnvart einstaklingum hefði umræðan snúist um aðalatriðið sem er hvernig maður rekur stóra lánastofnun í svona umhverfi.

Síðan var líka rætt dálítið um leigufélögin. Ég man eftir því að í félagsmálanefnd benti ég á hættuna við að byggingaverktakar seldu leigufélögum sem þeir stofnuðu íbúðirnar sínar á einhverju verði sem þeir fengju lán fyrir hjá Íbúðalánasjóði og svo færi leigufélög á hausinn. Þetta benti ég á aftur og aftur. Ég varaði menn við því. En þetta gerðist og menn hafa tapað mörgum milljörðum á því, sem er líka gagnrýnivert.

Varðandi hæfisskilyrði þeirra sem starfa hjá Íbúðalánasjóði og störfuðu og eru í stjórn hefur verið skerpt á þeim gagnvart öllum fjármálastofnunum, gagnvart Íbúðalánasjóði, og það er líka spurningin um eftirlit með þessum stofnunum, það hefur allt verið lagað. Það er búið að laga heilmikið af þeim vandamálum sem þarna urðu til. Það er ágætt.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar þurfum við að breyta lögum um rannsóknarnefndir þannig að fólk eigi andmælarétt. Ég hygg að skýrslurnar verði miklu málefnalegri um leið og hinn raunverulegi vandi sem menn verða að kanna, og þessi skýrsla gerir það og er mjög góð að því leyti. Hún fer í gegnum öll þau atriði sem ég hef nefnt, en þau týnast vegna þess að menn eru svo uppteknir af persónulegum ávirðingum sem að sjálfsögðu vekja mikla athygli. Svo þarf að gæta þess að kostnaður fari ekki úr böndum.