143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það sem ríkið gerði var að fara fram á lögbann á þessar aðgerðir. Það voru viðbrögð ríkisins og því máli verður fylgt eftir fyrir þar til bærum dómstólum.

Verði fallist á lögbannið þarf að fylgja því eftir með sérstöku dómsmáli. Verði ekki fallist á lögbannið er tilefni til að höfða sjálfstætt dómsmál til að skera úr um þau réttindi sem þarna er um að ræða. Ég tel að fara beri varlega í almennar yfirlýsingar eins og þær sem hv. þingmaður hafði hér uppi um að það sé almennt alfarið á öllum eignarlöndum bannað að taka sérstakt gjald. Það er ekki jafn skýrt og hv. þingmaður heldur hér fram. (ÖJ: Ég er að tala um Geysi.) Já, á Geysissvæðinu er það sérstaka ástand uppi að ríkið fer bæði sem landeigandi að hluta þess lands sem liggur að Geysi og sem eigandi að hverasvæðinu sjálfu með verulega stóran eignarhluta. (Forseti hringir.) Það er á því byggt af hálfu ríkisins að án samkomulags við ríkið sem meðeiganda að svæðinu (Forseti hringir.) sé öll gjaldtaka á því ólögmæt. Á því byggir meðal annars lögbannskrafan. (ÖJ: Af hverju er þetta þá ekki stoppað?)