143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

staða efnahagsmála.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fann fyrir því á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar á fyrra ári að uppi voru miklar efasemdir í þingsal um það hvort ríkisstjórnin gæti að hausti komið fram með hallalaus fjárlög. Við gerðum það og þrátt fyrir breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem þingið gerði var því haldið hallalausu. Ég trúi því að við munum gera gott betur á þessu ári, nýjustu tölur um arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum eru til dæmis langt umfram væntingar og þess vegna eru efni til að ætla að afkoma ríkisins á yfirstandandi ári geti jafnvel orðið talsvert betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Það er samt ekki aðalmálið. Aðalmálið er ástandið í efnahagsmálum sem hv. þingmaður kemur inn á, sem sýnir að hagvöxtur á árinu 2013 var talsvert umfram væntingar. Hagvöxtur á yfirstandandi ári stefnir í að vera upp undir 3% sem er langt umfram það sem er að gerast í samanburðarlöndunum. Spár frá Seðlabankanum, Hagstofunni, greiningaraðilum og öðrum um hagvöxt, ekki bara á þessu og næsta ári heldur árunum þar á eftir, eru jafnframt yfir því sem við sjáum gerast í hagkerfunum í kringum okkur.

Þetta ásamt með því að við erum nú búin að ná verðbólgunni niður í 2% og að atvinnuleysið er rétt um 4% er grundvöllurinn að þeirri miklu kaupmáttaraukningu sem varð á síðasta ári og verður á þessu ári og stefnir í að verði á næstu árum. Lífskjörin á Íslandi eru sem sagt að batna í dag hraðar en í samanburðarlöndunum og það stefnir í að sú þróun haldi áfram ef við höldum okkur við efnið.