143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[16:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að það er ófremdarástand í húsnæðismálum hjá fjölda fólks á höfuðborgarsvæðinu, en það er líka vandi á landsbyggðinni og þótt hann sé af öðrum toga ber að taka hann alvarlega. Beðið hefur verið eftir niðurstöðum og tillögum samráðshóps um framtíðarskipan húsnæðismála, en ég tel að stjórnvöld verði strax að grípa til einhverra aðgerða til að mæta þeim mikla vanda sem blasir við fólki sem nú er á hrakhólum í leit að húsnæði og ræður ekki við það háa leiguverð sem er á markaði. Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu er upp úr öllu valdi og láglaunafólk og ungt fjölskyldufólk ræður hreinlega ekki við að kaupa íbúðarhúsnæði eins og staðan er í dag.

Það er nauðsynlegt að byggja upp virkan leigumarkað og styrkja skilvirk félagsleg úrræði. Það á að vera raunhæfur valkostur að geta valið á milli að búa í séreign eða velja það að búa í leiguhúsnæði með búsetuöryggi til lengri tíma. Húsnæðisbætur eiga að geta fylgt einstaklingnum en ekki endilega búsetuforminu hverju sinni eða eftir því hvar maður er staddur á lífsleiðinni, því að allir þurfa jú þak yfir höfuðið.

Mér finnst að gera þurfi þarfagreiningu á ástandi húsnæðismála á landsbyggðinni. Þar vantar víða húsnæði til leigu sem kemur í veg fyrir að fólk sem vill setjast þar að ílengist vegna þess að fólk er ekki tilbúið til að fjárfesta strax í húsnæði og vill fá einhvern aðlögunartíma.

Hlutverk Íbúðalánasjóðs er og verður landsbyggðinni mikilvægt, eins og kemur fram í nýlegri ráðgjafarskýrslu Íbúðalánasjóðs þar sem verið er m.a. að ræða svæði sem búa við markaðsbrest. Þar sýna allar tölur að Íbúðalánasjóður hefur staðið upp úr í því að sinna landsbyggðinni og ég tel mjög brýnt að framboð á leiguhúsnæði á vegum sjóðsins úti um allt land (Forseti hringir.) verði aukið.