143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

leiðbeiningarskylda Tryggingastofnunar.

401. mál
[19:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði að taka upp mál við hæstv. ráðherra sem snýr að leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar. Ástæðan er sú að þegar síðast var fjallað um málið fyrir nefnd, þ.e. í velferðarnefnd, um breytingar á lögum um almannatryggingar, komu mjög sterkt fram þau sjónarmið frá umsagnaraðilum að þrátt fyrir að leiðbeiningarskyldan hafi verið í lögum í þó nokkuð langan tíma telja margir að það sé vandkvæðum bundið að fylgja henni almennilega eftir.

Ég ætla ekki að fara út í það að sakast við nokkurn mann sökum þessa heldur vil ég miklu frekar eiga orðastað við hæstv. ráðherra um það hvernig við getum bætt þarna úr. Það er einfaldlega þannig að þeir sem sækja sér þjónustu Tryggingastofnunar, t.d. þeir sem skyndilega verða veikir, þeir sem verða fyrir slysum, eru á mjög erfiðum stað í lífi sínu, takast á við breyttar aðstæður og þess vegna eru það þung spor að þurfa líka að sinna því að leita eftir upplýsingum um rétt sinn.

Þetta er þjónustustofnun og þá ber okkur stjórnmálamönnum sem að þeirri þjónustustofnun stöndum, þjónustustofnun sem á að gæta réttinda borgaranna, að tryggja að hún hafi þau verkfæri sem á þarf að halda til að rísa undir skyldum sínum og þar með talið þessari leiðbeiningarskyldu.

Það sem ég hef líka orðið vör við er að frjáls félagasamtök á sviði velferðarmála eru mikið með þessi verkefni á sinni könnu, þ.e. að leiðbeina félagsmönnum sínum í gegnum kerfið, ef svo má að orði komast. Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra þeirrar spurningar hvort hún teldi að framkvæmd leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar samkvæmt 37. gr., sem nú er, en var áður 4. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar, sé viðunandi eða hvort ráðherra sé sammála mér í því að við þurfum að styrkja stofnunina sjálfa svo að hún geti staðið undir skyldum sínum samkvæmt lögum.

Ég held að við hér inni séum öll þeirrar skoðunar að best sé að Tryggingastofnun hafi sem best úrræði til að geta risið undir þessari skyldu þannig að sú umbreyting í lífi fólks að þurfa að leita réttar síns á þennan hátt og þurfa að reiða sig á hið opinbera hvað varðar lífsviðurværi fái sem mestar og bestar upplýsingar frá Tryggingastofnun strax á fyrstu stigum.