143. löggjafarþing — 85. fundur,  31. mars 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[20:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil víkja nokkrum orðum að því frumvarpi sem hæstv. fjármálaráðherra hefur nú mælt fyrir, um fjármálastöðugleikaráð. Ég fagna því mjög að frumvarpið skuli vera komið fram og tel það til mikilla bóta. Það byggir á tillögugerð sem má rekja allt aftur til ársins 2011 þegar við vorum að glíma við að leggja niður fyrir okkur umgjörð stofnana- og eftirlitskerfis á fjármálamarkaði í kjölfar efnahagshrunsins.

Ég átti þá frumkvæði að því sem efnahags- og viðskiptaráðherra að fá þrjá menn í vinnu við að greina þessa þætti. Það voru Kaarlo Jännäri, sem hafði komið að málum hér á landi og lagt gott til hvað varðar endurskipulagningu fjármálaeftirlits í kjölfar efnahagshruns, Gavin Bingham, sem var framkvæmdastjóri hjá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel í Sviss, og Jón Sigurðsson, fyrrverandi aðalbankastjóri Norræna fjárfestingabankans og fyrrverandi viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri. Þremenningarnir unnu síðan mjög gott starf á löngum tíma.

Eftirmaður minn í embætti, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hélt þeirri vinnu áfram. Hann lagði fram hér á Alþingi skýrslu sem þremenningarnir höfðu átt frumkvæði að því að vinna. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. fjármálaráðherra skuli hafa haldið áfram með þetta verkefni. Þetta er einn af þeim málaflokkum sem skiptir mjög miklu máli að um ríki víðtækt traust og samstaða þvert á flokka og til þess að stjórnkerfi vegna fjármálaáfalla hafi nauðsynlegt traust og trúnað.

Ég er ánægður með frumvarpið sem hér liggur fyrir og hlakka til að fara yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég ætla kannski ekki að eyða of mörgum orðum að því hér, en hugsa mér gott til glóðarinnar að fara nánar yfir það með sérfræðingum í nefndinni.

Ég vek sérstaklega athygli á því að í 9. gr. frumvarpsins er með jákvæðum hætti kveðið á um skyldu stofnana til að deila upplýsingum hver með annarri. Í aðdraganda hruns var það gagnrýnt nokkuð að ekki væri alveg ljóst að stofnanir hefðu haft fullt traust hver á annarri og var þá sérstaklega horft til Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Jafnvel upplifði ég það sem efnahags- og viðskiptaráðherra að þær töldu sér ekki mögulegt, miðað við gildandi ákvæði um þagnarskyldu, að deila til fulls upplýsingum sem hvor um sig hafði orðið áskynja um við framkvæmd lögmæltra verkefna.

Það er því mjög mikilvægt að með lögum skuli kveðið á um þetta með skýrum hætti og að stofnanirnar þurfi að deila upplýsingum og mati sínu með hinu pólitíska valdi; á það skorti líka á sínum tíma. Ég fagna því mjög að með þessu skuli vera lögmælt umgjörð utan um samráðið og að ráðherrann skuli geta leitað af sér allan grun um það hvort stofnanirnar viti um einhverjar hættur, því að það er mjög mikilvægt fyrir hið pólitíska vald að vera að fullu upplýst.

Eitt er það atriði sem ég vil vekja máls á hér vegna þess að um það er ekki fjallað í frumvarpinu, þ.e. þessi spurning: Hvað gerum við síðan við þessar upplýsingar og með hvaða hætti deilum við upplýsingum þvert á flokka og milli stjórnar og stjórnarandstöðu? Því nefni ég þetta að þetta var vandamál í aðdraganda hruns.

Ég get sagt fyrir minn flokk að þegar við komum að stjórnarmyndun vorið 2007 vissum við ekki hversu tæpt hefði staðið með viðbrögð við fjármálaáfalli vorið 2006. Það voru fréttir fyrir okkur að lesa það síðar, í bókum Styrmis Gunnarssonar og úr upplýsingum frá ýmsum öðrum, að menn hefðu talið sig vera einn dag frá fjármálaáfalli vorið 2006. Ef við hefðum vitað það vorið 2007 að svo tæpt hefði staðið um fjármálastöðugleika hefðum við líklega nálgast þá stjórnarmyndun með öðrum hætti. Við hefðum líklega hugsað það öðruvísi hvernig við hefðum nálgast það verkefni ef við hefðum vitað þetta.

Því er ég að rekja þetta að þarna kemur að því að það er nauðsynlegt, þegar þjóðarvá er fyrir dyrum, að fjármála- og efnahagsráðherra, sem falið er lykilhlutverk og leiðandi hlutverk í þessu frumvarpi, geti rætt í trúnaði við forustumenn stjórnarandstöðu og upplýst þá um ástand mála.

Til að það kerfi sem hér er lagt til að verði sett upp virki til fulls þarf að vera skilningur á því þvert á stjórnmálaflokka að brýn efnahagsleg rök séu fyrir tilteknum aðgerðum. Þær verða ekki nauðsynlega vinsælar. Sem dæmi er hér gert ráð fyrir því að á vettvangi fjármálastöðugleikaráðs verði til dæmis rætt um hvort auka þurfi, vegna efnahagslegra aðstæðna, veðþekju vegna íbúðalána, gera það erfiðara eða dýrara fyrir fólk að fá lán til að kaupa sér húsnæði, minnka til dæmis hámarksveðhlutfall úr 80% niður í 70%, eða setja áhættuálag á íbúðalán. Hvorugt mun verða til vinsælda fallið. Og ráðherra sem ákveður að gera slíkt, vegna ráðlegginga frá Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, vegna þess að fjármálastöðugleikanum er hætta búin, verður í viðkvæmri stöðu og það verður auðvelt að skamma hann í dægurþrasi stjórnmálanna. Þá skiptir máli að hægt sé að deila þeim upplýsingum sem hér er gert ráð fyrir að verði deilt með hinu pólitíska valdi, þ.e. að ráðherrann sem fer með málaflokkinn geti valdað slíkar ákvarðanir með stjórnarandstöðunni. Því að stjórnarandstaða sem veit hvernig í pottinn er búið, veit að hættuástand blasir við, mun kannski ekki gera sér leik að því að skaða ráðherrann pólitískt ef hún veit hver raunverulegur grunnur ákvarðana hans er.

Það eina sem ég sakna úr frumvarpinu er útfærsla á því hvernig hægt verður að deila trúnaðarupplýsingum með stjórnarandstöðu um niðurstöðu mats sem ráðherra hefur orðið áskynja um í fjármálastöðugleikaráðinu. Auðvitað kann líka að þurfa frekari ákvæði til að ráðherra geti deilt upplýsingum á vettvangi ríkisstjórnar, því að það er ekki algjörlega ljóst, finnst mér, hversu vítt svigrúm hann hefur til að rökstyðja ákvarðanir sínar gagnvart félögum sínum í ríkisstjórninni sem kannski vilja að hann geri aðra hluti — en hann veit meira en þeir. Það þarf að hugsa þetta til botns út frá hinni pólitísku aðferðafræði til að hin pólitíska umgjörð okkar geti endurspeglað það góða stjórnskipulag sem mér sýnist menn vera að reyna að fikra sig áfram í að byggja hér upp.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri og ekki lengja umræðuna að óþörfu en vildi bara koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég tel mjög mikilvægt að hægt sé að deila efnislegu mati um þjóðarvá í efnahagsmálum með stjórnarandstöðu. Ég tel að reynsla undanfarinna ára sýni okkur að nauðsynlegt sé að geta gert það, að það sé ekki einn stjórnmálaflokkur sem til dæmis viti, menn í þröngum hópi, hvaða hætta steðjar að þjóðarbúinu heldur sé hægt að deila þeim upplýsingum og þar með skapa okkur öllum betra samfélag, tryggja skynsamlegri ákvarðanir og verja þá stjórnmálamenn sem þurfa að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir fyrir ómálefnalegri gagnrýni. Gagnrýnin er ekkert ómálefnaleg ef menn hafa ekki staðreyndirnar uppi á borði, vita ekki um hinn raunverulega bakgrunn ákvarðananna, en hún kann að einkennast af pólitískum dægurvindum nema fundin sé leið til að gera okkur kleift að tala saman þvert á flokka þrátt fyrir pólitíska dægurvinda.