143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[15:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. ráðherra sé í raun að biðja mig að fara öfuga leið við þá sem ég vil gjarnan að sé farin í svona málum. Ég var með tillögu um að menn drægju fram kosti og galla á ákveðnum formum, hverjir séu styrkleikar núverandi tónlistarskólakerfis, hver sé styrkleikinn við að sveitarfélögin reki það, hvað mundi hugsanlega tapast við að ríkið tæki yfir, áður en ég svara spurningunni. Ég held þess vegna að mikilvægt sé að koma því inn í umræðuna. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er samhljómur í samfélaginu um ákveðna grundvallarþætti í menntun og í tónlistarnámi og mikill skilningur á því að við þurfum að hafa það öflugt og ég efast ekki um að hægt sé að ná samhljómi á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaganna og þingsins. Það er þó með ákveðnum fyrirvörum. Þeir eru að menn fari ekki í róttækar hugmyndir um útvistun, einkavæðingu eða aðra slíka hluti. Það getur líka kallað á að við sameinumst um að umgjörðin, kjaralegt umhverfi, aðbúnaður að skólum og annað séu skilgreindar kröfur.

Það eru kostir og gallar við þetta. Það að tónlistarskólarnir eru hjá sveitarfélögunum og reknir af sveitarfélögunum býður upp á ýmsa skemmtilega möguleika innan hvers sveitarfélags í sambandi við samspil viðburða í bænum, milli bæjarfélagsins og tónlistarskólans, þar sem maður getur séð fyrir sér að ríkið mundi alltaf segja: Nei, við ætlum ekki að borga það, það þarf að kaupa af ríkinu ef slík þjónusta á að koma til o.s.frv. Þetta hefur allt saman kosti og galla. Hæstv. ráðherra þarf einmitt að koma fram með hugmyndirnar á hugmyndastigi af því að við þurfum á því að halda að ná samstöðu um málið, að draga fram hvað fylgir hvorri leiðin sem farin yrði og síðan mundum við geta valið í framhaldinu. Þótt ég sé ekki í þeirri stöðu að stjórna hér mun ég ekki gefa eina skýra niðurstöðu vegna þess að ég treysti mér ekki til að sjá fyrir alla möguleikana sem hugsanlega kæmu upp í vandaðri umræðu.