143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:16]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég er alveg sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um að þarna er að fara forgörðum á hverjum einasta degi mjög mikilvægur partur af Íslandssögunni. Og alveg eins og hv. þingmaður minntist á er líklega að falla frá í hverjum mánuði fjöldi fólks sem hefur þá þekkingu til að bera en hefur kannski ekki getað haft tækifæri til að koma henni áleiðis. Við verðum því, eins og ég segi, að staldra við og bæta mjög fljótt úr þessu. Ég vil endurtaka áskorun mína um að örnefnin séu ekki tekin upp hrá heldur verði að fylgja með, sé þess nokkur kostur, hvaðan þau komu, hvað þau þýddu upprunalega o.s.frv. Þar að baki geta oft verið mjög skemmtilegar, áhugaverðar sögulegar tengingar sem með öldunum geta svo auðveldlega farið forgörðum. Ég er ansi hrædd um að mörg örnefni séu á Íslandi í dag sem enginn veit í raun og veru af hverju stafa, og það er mjög mikil synd.