143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

viðhorf forsætisráðherra til loftslagsbreytinga.

[15:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Niðurstöður skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna hafa talsvert verið til umræðu í samfélaginu og fjölmiðlum, bæði í gær og fyrradag. Það eru sláandi niðurstöður sem staðfesta í raun fyrri skýrslur en segja má að merkin verði alltaf skýrari með hverri skýrslu, að við horfum fram á mjög stórar breytingar á búsvæðum tegunda, bæði til lands og sjávar, við horfum fram á mikla fólksflutninga í heiminum, breytta stöðu hvað varðar fæðuframleiðslu og miklar ógnir gagnvart fæðuöryggi fólks og alvarlegan samdrátt í vatnabúskap.

Hæstv. forsætisráðherra ræddi þessi mál í fjölmiðlum í gær. Við höfum raunar rætt þau áður á þingi og ég hef óskað eftir sérstakri umræðu við hæstv. forsætisráðherra um stefnu Íslands, bæði hvað varðar það hvernig við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda en líka hvaða viðbragðsáætlun Ísland ætlar að setja sér til að bregðast við þessu. Ljóst er að þó að Ísland sé kannski ekki á hættulegasta stað í heimi getum við alveg eins búist við því að þurfa að mæta ýmsum afleiðingum loftslagsbreytinga. Súrnun sjávar er ein sú alvarlegasta sem kann að hafa gríðarleg áhrif á lífríkið við strendur Íslands. Öfgar í veðri er nokkuð sem við munum væntanlega kynnast eins og aðrar þjóðir.

Gert var talsvert úr því að hæstv. forsætisráðherra hefði sagt að þessar breytingar sköpuðu tækifæri fyrir tiltekin ríki á norðurslóðum, og nefndi Ísland. Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra að skýra aðeins þessi orð, hvort hann deili ekki þeim þungu áhyggjum sem við hljótum öll að hafa af loftslagsbreytingum í heiminum enda hnattrænt vandamál. Voru þessi orð jafnvel að einhverju leyti slitin úr samhengi? Ég hef mikinn áhuga á að heyra hver er sýn hæstv. forsætisráðherra á þær breytingar sem í raun er verið að staðfesta með hverri skýrslunni á fætur annarri og þá einmitt hvað hann sér fyrir sér hvert framlag Íslands geti verið til að reyna að draga úr þessum breytingum á heimsvísu.