143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

upplýsingar til almennings um skuldaniðurfærslu.

[15:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta snýst ekki um mig. Þetta snýst um það að veita almenningi upplýsingar um fjárhag heimilanna, hvað hver og einn getur vænst þess að fá.

Í Hörpu töluðu forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að fólk mætti vænta þess að fá 13%. Nú eru þeir alveg hættir að nefna prósentur. Leiðréttingartillögurnar sem kynntar voru í Iðnó nema 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna. Það er allt önnur tala en 13% í Hörpu.

Meðal annars hafa vaknað áhyggjur af því hvort það geti verið rétt að tillögurnar í Hörpu hafi reynst dýrar og þess vegna hafi verið ákveðið að setja þak á heildarfjárhæðina sem greidd yrði í úrræði og þess vegna geti enginn reiknað út hvað hann muni fá.

Ég hvet forsætisráðherra til að hætta að hugsa um mig og setja upp reiknivél á netinu þar sem fólk geti reiknað út eins og það gat eftir fundinn í Hörpu hvað hver og einn fær. Þá þurfum við forsætisráðherra ekki að standa hér og deila.