143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er samt þannig að ég veit um fjölda fólks sem verið hefur í mjög erfiðri skuldastöðu á síðasta kjörtímabili sem leitað hefur úrræða hjá fjármálastofnunum og sífellt komið að lokuðum dyrum. Það er bara talað um að það þurfi að redda sér sjálft. Stundum hefur annað hjóna þurft að leita til útlanda eftir vinnu til að reyna að láta enda ná sama eða að fólk hefur reynt að bæta við sig vinnu hér heima.

Mér finnst við í þessari ríkisstjórn vera að reyna að koma til móts við þann hóp sem varð fyrir forsendubresti og þann hóp sem búinn er að bíða í fjögur, fimm ár eftir aðgerðum og hefur komið að lokuðum dyrum hjá fjármálastofnunum.