143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Mér fannst hann orða það svo að hann hefði skilið ræðu mína á þann veg að ég væri ekki fylgjandi því að auka ráðstöfunartekjur almennings í landinu. Ef hann hefur skilið ræðu mína þannig þá er það ekki réttur skilningur. Það sem ég var að teikna hér upp er að vöxtur til lengri tíma, þó að það geti verið jákvætt að einhverju leyti til skamms tíma, getur ekki fyrst og fremst byggst á aukinni einkaneyslu.

Að sjálfsögðu er ég fylgjandi því að auka ráðstöfunartekjur en til þess að auka þær þurfum við langtímavöxt. Þess vegna velti ég því upp hér hvernig við ætlum að forgangsraða hlutunum í þeirri skuldastöðu sem við erum í; samfélagslegir innviðir okkar hafa þurft að þola mikið eftir hrun og ég nefndi háskólastigið sem lengi hefur verið vanfjármagnað. Ef við ætlum að horfa upp á vöxt til lengri tíma, sem að sjálfsögðu skapar auknar ráðstöfunartekjur fyrir almenning í landinu, þá er eitt af því mikilvægasta sem ég tel að við þurfum að gera, og ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það, að fjárfesta í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Ef við skoðum alþjóðlegar rannsóknir, hvert sem litið er, sjáum við að fjárfestingar ríkja í þeim þáttum eru þær fjárfestingar sem skila sjálfbærum vexti, langtímavexti, og þar með auknum ráðstöfunartekjum fólks, í þeim ríkjum sem fylgt hafa slíkri stefnu.

Ég er vissulega fylgjandi auknum ráðstöfunartekjum fólks til lengri tíma en mér finnst mikilvægt að við hugsum um það hvernig við getum náð slíkum vexti til langs tíma.

Hvað varðaði ávöxtunina þá verð ég líklega að koma að henni í seinna svari en þar var ég fyrst og fremst að varpa fram spurningum og ég get farið betur yfir þær hér á eftir.