143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki svo klippt og skorið að lífið sé excel-skjal, en auðvitað erum við öll sammála um að mikilvægt er að fjárfesta í rannsóknum og þróun og auka fjárfestingu í landinu almennt, það er mjög mikilvægt. Það er án nokkurs vafa að mínu áliti. Ég veit ekki alveg eftir svörin hvar skoðun hv. þingmanns liggur í því en mér þykir líklegt að hann sé sammála mér um að það sé jákvætt að afborganir fólks sem ber miklar skuldir, jafnvel þó að þær séu ekkert gríðarlega miklar, lækki. Það mun gerast ef þessi leið verður farin. Ég held að það að fólk hafi meira á milli handanna muni hafa afskaplega góð áhrif á efnahagslífið og ég treysti fólki til að fara vel með fjármunina. Reyndar treysti ég fólki betur til að fara með sína fjármuni en ég treysti okkur stjórnmálamönnum, svo að það sé sagt.

Ég spurði hv. þingmann líka út í annað atriði. Röksemd hv. þingmanns er sú að þessi aðgerð nýtist betur þeim sem hafa hærri tekjur vegna þess að skattafslátturinn sé meiri. Það sama gildir um það að ekki skuli lagður fjármagnstekjuskattur á séreignar- og lífeyrissparnað. Með sömu rökum má segja að það nýtist þeim sem hafi hærri tekjur. Ef fjármagnstekjuskattur yrði lagður á það mundu þeir greiða miklu meira. Ef hv. þingmaður er þessarar skoðunar þá vildi ég bara spyrja: Er hv. þingmaður þá með sömu rökum þeirrar skoðunar að við ættum að setja fjármagnstekjuskatt á þetta sparnaðarform? Ef röksemd hv. þingmanns er sú sem hún fór mjög rækilega yfir og við erum bara ósammála í grundvallaratriðum, þá hlýtur hv. þingmaður að vera ósáttur við að þeir sem eru með hærri tekjur nýtist það betur að við séum ekki með fjármagnstekjuskatt á þennan sparnað. Það gefur augaleið.