143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Raunar var þetta ekki framsaga af því að hann er ekki að mæla fyrir málinu, heldur er hér verið að kynna kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins og hlut Sjálfstæðisflokksins í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég er sammála hv. þingmanni um að þó að réttlætinu sé snúið á hvolf, hvað varðar hlut lágtekju- og meðaltekjufólks í þessu, þá er margt jákvætt við að gefa fólki þetta tækifæri þó að mér finnist nú kannski ekki góður bragur að því að ríkisstjórnin sé að þakka sér það að fólk greiði niður skuldir sínar með sínum eigin sparnaði. Ég held að það sé fyrst og fremst fólkinu sjálfu að þakka sem leggur á sig þann sparnað.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um tvennt vegna þess að hann fær málið til meðferðar í nefnd: Ef lágtekju- og meðaltekjufólk er tilbúið til að leggja hart að sér og spara meira af launum sínum hlutfallslega en 4%, til að fá hinn skattfrjálsa ávinning, er ekki rétt að gera því líka mögulegt að ná sama skattafslætti og okkur alþingismönnum býðst eða 600 þús. kr. alls? Ættu ekki allir að sitja við sama borð í því? Ef fólk treystir sér til að leggja til hliðar 1,5 millj. kr. á næstu þremur árum á það þá ekki að fá að gera það skattfrjálst í stað þess að takmarka möguleika lágtekju- og meðaltekjufólks með því að setja þak á það hve hátt hlutfall af tekjum sínum, lágum tekjum, fólk má setja í þennan sparnað? Eigum við ekki að reyna að hvetja alla til að leggja inn í þessa leið og láta alla sitja við sama borð?