143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er býsna fimur í skógarferðum sínum þegar hann reynir að koma ábyrgðinni á þessu yfir á Vinstri græna og Samfylkinguna. Var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem var í ríkisstjórn í 18 ár fram að og fram yfir dagana þegar allt hrundi á Íslandi og heimilin m.a. lentu í skelfilegum hremmingum? Á þessum 18 árum stórhækkar skuldahlutfall heimilanna á landsframleiðslu. samanber það sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson fór yfir áðan. Það er á þeim árum sem við rjúfum 100% markið. Ég man það vel, ég skrifaði blaðagrein um það, það er upp úr aldamótum sem heildarskuldir heimilanna Íslandi fara fram yfir landsframleiðslu og auðvitað tók enginn eftir því.

Ég er að sjálfsögðu sammála því að það er skelfilega áhættusöm staða sem sprettur af því ef tekjulágt fólk rembist við að reyna að komast yfir íbúð með lágum tekjum og þarf, til þess að kljúfa kaupin í byrjun, að veðsetja eignina kannski í 90% enda var það loforð galskapur. Sjálfstæðismenn stóðu að því með Framsóknarflokknum að innleiða það.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann um annað. Hann segir að ekki sé til betri ávöxtun en að borga niður skuldir og ég er alveg sammála því. Það er góð ávöxtun að borga niður verðtryggð lán með 4% vöxtum eða hærri, verðtryggðum, það er mjög góð ávöxtun. En það er líka mjög góð ávöxtun fyrir skuldugan ríkissjóð að borga niður skuldir. Ef við tökum kostnaðinn sem lendir beint á ríkissjóði vegna þessara tveggja aðgerða sem hér eru á borðum, því báðar eru að verulegu leyti fjármagnaðar úr ríkissjóði, að slepptu því sem menn eiga að borga sjálfir með séreignarsparnaði sínum, fara líklega um 120 milljarðar kr. úr ríkissjóði í þessar tvær aðgerðir samtals, að teknu tilliti til ávaxtaðra framtíðartekna sem ríkið afsalar sér í gegnum séreignarsparnaðarleiðina. Það mundi aldeilis muna um það fyrir skuldugan ríkissjóð að greiða niður skuldir (Forseti hringir.) fyrir a.m.k. eitthvað af þeirri fjárhæð. Það eru því tvær hliðar á málinu.

Það er ekki bara hægt að tala fallega upp í eyrun á þeim(Forseti hringir.) sem gjarnan vilja eignast hratt eign í húsnæðinu sínu með skattafsláttum til að borga niður lánin. (Forseti hringir.) Það er ríkissjóður sem tekur þá á sig reikninginn að stærstum hluta.