143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi útreikninga er það rétt skilið að það er fyrst þegar við höfum fengið allar umsóknir vegna málsins að við getum gert okkur grein fyrir því hvert heildarumfang þeirra umsókna er og þar af leiðandi einnig hvernig sú fjármögnun sem tryggð hefur verið muni nýtast til niðurfærslu á lánunum. En allir útreikningar fram til þessa hafa miðað við tiltekinn forsendubrest. Þar hefur verið horft til verðbólgu sem er rétt um 5%. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þær fjárhæðir sem hér er um að ræða muni gagnast til þess að leiðrétta lán um það bil í samræmi við það sem áður hefur verið kynnt.

Ég vek athygli á því í þessu sambandi að mér finnst ekki rétt að hengja sig alfarið á eina tölu í einum þætti aðgerðarinnar, heldur verðum við að horfa á heildaráhrif aðgerðanna í fleirtölu sem við tölum hér um. Í því sambandi er alveg óvitlaust að horfa líka til þess sem áður hefur verið gert og velta því fyrir sér í ljósi heildarumfangs allra opinberra aðgerða hversu mikið er í raun verið að taka af þeirri verðbólgu sem gekk umfram eitthvert tiltekið viðmið á viðkomandi árum.

Sagt er að mögulega hefði verið betra að taka fleiri lán með inn. Ég segi á móti: Þessi aðgerð hefur ávallt verið hugsuð til þess að taka til verðtryggðra lána hjá fólki sem tók slík lán til þess að eignast þak yfir höfuðið, aðgerðin er bundin við það.

Hvað með námslán? Við erum með annað kerfi til þess að reyna að létta þeim byrðarnar sem taka námslán. Það birtist bæði í vaxtaprósentunni og í endurgreiðsluferlinu.

Varðandi fordæmið. Í besta falli væri hér á ferðinni einhvers konar pólitískt fordæmi (Forseti hringir.) sem ég tel þó ekki vera eiginlegt, en alveg (Forseti hringir.) örugglega ekki lagalegt fordæmi sem skapar einhvern rétt í (Forseti hringir.) framtíðinni.