143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það á ekki að koma neinum á óvart að í aðra röndina er hér um efnahagslega aðgerð að ræða. Það hefur alltaf legið fyrir. Það er efnahagslega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að losa heimilin í landinu almennt undan því skuldafargi sem hér varð. Það er ekkert nýtt varðandi þetta mál.

Ég leyfi mér að benda á að eftir því sem menn sérsníða lausnirnar meira, þeim mun meira æpandi verða jaðartilvikin. Var sá sem skuldaði því miður bara 109% ekki í vanda? Var sá sem var með 112% skuld í miklu meiri vanda en sá sem var með 109% skuld? Þessi jaðartilvik þegar menn eru að sérsmíða lausnirnar æpa svo á mann úti um allt að það verður til þess að maður kemst að þeirri niðurstöðu að almennar aðgerðir séu heppilegri. Þannig var það með manninn sem tók lán árið 1997, einhvers staðar á árabilinu fram að hruninu hefðum við þurft að draga mörkin og segja: Ætlunin var að aðstoða þann sem tók lán hér. (Forseti hringir.) Munurinn á honum og þeim sem kom árið á undan gat hlaupið á milljónum og þá var ekki nema von að þegar þessir menn bjuggu hvor sínum megin í sama parhúsinu hafi sá sem ekkert fékk spurt: Hv. þingmaður, af hverju er ég skilinn eftir?