143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég vil þó vera alveg viss um að ég hafi skilið hann rétt, þ.e. að hann eigi von á því að svigrúmið verði það sem var rætt um fyrir kosningar, 240–300 milljarðar. Ríkissjóður innheimti með einhverjum hætti það sem upp á vantar, þessa 200 milljarða eða hvað, og það nýtist til þess að styrkja innviði og greiða niður skuldir. Sér hv. þingmaður fyrir sér að það verði innheimt með öðrum hætti en með þeim skatti sem var samþykkt að leggja hér á fjármálafyrirtækin og þrotabúin hér fyrir jól, svo því sé haldið til haga, eða á hann von á því að það svigrúm myndist með öðrum leiðum?

Svo ítreka ég spurningu mína um verðbólguáhrifin sem kunna líka að verða meiri vegna aukinnar einkaneyslu. Á hv. þingmaður von á því að aukin verðbólga hafi þau áhrif að almenningur í landinu glati í raun og veru skuldaleiðréttingunni í verðbólgu? Það tengist auðvitað umræðunni um verðtryggingu, sem við höfum átt hér áður.