143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Forsendubrestur. Það er lítið sem kjósendur geta gert ef þeir verða fyrir forsendubresti. Kosningaloforð er náttúrlega munnlegur samningur við kjósendur fyrir atkvæði þeirra, en það er lítið sem kjósendur í okkar stjórnfyrirkomulagi geta gert. Auðvitað ættu kjósendur að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þingrof, kallað eftir því að þing verði rofið og boðað yrði til nýrra kosninga. Eða kannski að ríkisstjórninni verði vikið til hliðar og forseta falið að fela einhverjum öðrum að mynda ríkisstjórn. Það væri svona minna drastískt.

Valdið er kjósendanna. Við styðjum það öll að þegar stjórnvöld standa sig ekki geti almenningur gripið til þess ráðs að fara út á göturnar og mótmæla og reyna að koma stjórnvöldum frá. Við erum öll sammála því að sá réttur eigi að vera til staðar. Hvers vegna ekki að binda hann í stjórnarskrá þannig að fólk þurfi ekki endalaust að fara út á göturnar, að fólk þurfi ekki að berja potta og pönnur í gríð og erg? Það væri kannski hægt að setja það þannig upp að einhver ákveðinn hluti kjósenda geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þingrof, en síðan þyrfti kannski aukinn meiri hluta til þess að rjúfa þing. Það væri hægt að útfæra þetta á ýmsan hátt.

Það er alveg ljóst að þegar kjósendur verða fyrir forsendubresti — og það er nokkuð ljóst að kjósendur eru að upplifa þetta sem forsendubrest þegar fylgi flokks hrynur úr 24,4% niður í 14,4%, það er alveg ljóst að kjósendur hafa upplifað þetta sem forsendubrest — þá hafa þeir engin úrræði í dag til að kalla eftir nýjum kosningum.