143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í frumvarpinu að samkvæmt spá Seðlabankans muni einkaneysla fara upp um 1,5% í ár og á næsta ári en í heildina verði hún 4% hvað varðar þessar aðgerðir. Verðbólga mun aukast, og segir hér um 0,4%. Seðlabankinn var fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í morgun og talaði um 0,5%, þá er það af heildarpakkanum. Þessi aðgerð aftur á móti er verðbólguhvetjandi meðan aðgerðin um að nýta séreignarsparnaðinn er verðbólguletjandi, þannig að verðbólguáhrif af þessu sérstaka frumvarpi eru meiri þá en 0,5%.

Tel ég að aðgerðin muni brenna upp? Það veltur náttúrlega bara á hve verðbólgan er mikil, en miðað við verðbólguáhrif af þessari sérstöku aðgerð þá sé ég ekki að sú aðgerð muni brenna upp. Við erum að tala um að þetta sé svona að meðaltali um 20% lækkun, gæti verið það, kannski eitthvað minna í sumum tilfellum að sjálfsögðu. Á heildina litið, þeir sem munu njóta góðs af þessum aðgerðum, þeir sem munu fá þessa leiðréttingu (Forseti hringir.) munu verða betur staddir, en aðrir þurfa örlítið meiri verðbólgu, hærra vaxtastig og lægri krónu.