143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverð ábending frá hv. þingmanni. Hvort sem við köllum þetta séreignarsparnað eða séreignarlífeyrissparnað langar mig líka að benda á að þeir sem fá sínar einu tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins borga einfaldlega ekkert í lífeyrissjóð og þaðan af síður í séreignarsparnað. Þeir eiga þar af leiðandi engin uppsöfnuð réttindi í lífeyrissjóði og geta ekki nýtt sér þessa leið. Þó svo að þeir gætu einhvern veginn látið enda ná saman um mánaðamót og vildu leggja meira fyrir í sparnað er þessi leið hreinlega ekki í boði fyrir þann hóp.