143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vil beina til hennar einföldum spurningum. Hún nefndi þann vanda að hámarkið dygði ekki fyrir þá sem lent hefðu í erfiðustum vanda og keypt á árunum 2004–2008. Þar er ég sammála, það fólk fær ekki forsendubrestinn bættan að fullu. Af hverju er þá verið að bæta einhverju fólki eitthvað sem keypti löngu fyrr, kannski 1995 eða 1996, sem aldrei hefur orðið fyrir neinum forsendubresti? Af hverju er verið að láta það fólk fá peninga? Íbúðaverð þess fólks hefur hækkað miklu meira en lánin hafa hækkað.

Er hv. þingmaður sátt við að allt sem gert hefur verið í 110%-leiðinni, í sértækri skuldaaðlögun, komi til frádráttar í þessu? Ég sé ekki efnisrökin fyrir því vegna þess að hinar almennu aðstæður sem hljóta að réttlæta það að fólk sem keypti árið 1996 fái peninga úr ríkissjóði hljóta líka að (Forseti hringir.) réttlæta það að fólk sem er í alvarlegum skuldavanda vegna kaupa rétt fyrir hrun fái frekari úrlausn.