143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Síðustu dagana hafa þingmenn fengið þúsundir tölvupósta þar sem lýst er áhyggjum 14 þúsund stúdenta, og raunar fyrir hönd starfsmanna einnig, og varað er við afleiðingum verkfalls sem hugsanlega skellur á á prófatíma í vor. Samningsrétturinn er ekki hjá Alþingi og ég mun ekki styðja hugmyndir um að verkfallsréttur háskólakennara verði afnuminn með lögum, en ég tek undir áskorunina um að allt kapp verð lagt á að leysa málið, semja um kaup og kjör áður en til verkfalls kemur og að útvegað verði fé til að ná ásættanlegum og réttlátum samningi við kennara, eins og það er orðað í póstinum.

Þá er hnykkt á þessu með því að tryggja þurfi samkeppnishæfi íslenskra menntastofnana. Ég ætla að vona að ekki komi til verkfalls og að ríkisstjórnin og fjárveitingavaldið tryggi að við eflum háskólana, því að það er löngu sannað að þetta kerfi er rekið af vanefnum og þarf eflingar við.

Á sama tíma langar mig að vekja athygli á því sem hafði farið fram hjá mér og kom fram í vefriti Öryrkjabandalagsins 4. apríl sl. Þar var grein frá formanni Öryrkjabandalagsins þar sem vakin er athygli á því að samkomulag sem gert var árið 2010 og tók gildi 1. janúar 2011 um að koma í veg fyrir víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðanna féll úr gildi um áramótin.

Ég vissi vel að þetta var tímabundið, einfaldlega vegna þess að það áttu að koma ný almannatryggingalög, en þarna er um að ræða að þegar bætur hækka hjá öðrum aðilanum, sérstaklega þegar lífeyrisréttur hækkar, skerði það ekki bætur almannatrygginga. Þetta hefur verið afnumið og ég ætla rétt að vona að menn leiðrétti það sem allra fyrst vegna þess að þetta var mikilvægt skref og varðaði verulegar upphæðir þegar það var sett inn á sínum tíma, og á meðan ekki kemur nýtt almannatryggingafrumvarp sem tekur á þessu er mikilvægt að ákvæðið verði framlengt.

Á sama tíma má lesa um þær lækkanir sem hafa orðið á stuðningi (Forseti hringir.) við öryrkja, til að mynda hvað varðar hjálpartæki, komugjöldin á heilsugæsluna hafa hækkað og öryggishnapparnir á heimilum aldraðra hafa hækkað um 12 þúsund, réttara sagt hefur stuðningur Sjúkratrygginga (Forseti hringir.) við þann þátt lækkað um 1.200 kr. á mánuði. (Forseti hringir.) Það er mál að linni.