143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel hafa verið góða og upplýsandi. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að aðild að Evrópusambandinu væri stærra mál en svo að það sneri einungis að gjaldmiðli. Ég er sammála því. Þetta er stórt mál. En það verður þá líka að ræða það af þeirri alvöru sem það krefst og ákvörðun ríkisstjórnarinnar að óathuguðu máli að draga aðildarumsóknina til baka, með engum efnisrökum sem héldu, var ekki í samræmi við alvöru málsins. Og það er auðvitað mjög mikilvægt að menn freisti þess að svara því hver hættan sé af því að láta aðildarumsóknina ganga fram, semja um þann besta mögulega samning sem í boði er og leggja hann undir þjóðina í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum, bæði frá skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans og núna frá Alþjóðamálastofnun, sérstaklega ef við horfum til þess að hæstv. fjármálaráðherra sagði 2008 að það væri í góðu samræmi við ríka lýðræðishefð Sjálfstæðisflokksins þótt hann væri í ríkisstjórn og væri á móti aðild að Evrópusambandinu að semja um þann besta samning sem í boði væri og leggja fyrir þjóðina. Hann sem sagt taldi ómöguleikann bæði mögulegan og æskilegan og í samræmi við ríka lýðræðishefð Sjálfstæðisflokksins.

Ein rökin sem ég heyri talað um aftur og aftur um er að hægt sé að gera þetta allt sjálfur með aga í ríkisrekstri. Hæstv. fjármálaráðherra segir að það sem engum hafi tekist síðustu 70 árin ætli honum að takast. Mér finnst í fyrsta lagi felast í því mikið óraunsæi og í annan stað býsna hofmóðugt viðhorf til þeirra sem á undan okkur hafa gengið og setið í þessum sal, að það hafi allt verið eitthvert agalaust stóð sem aldrei hafi haft stjórn á grunnstærðum efnahagslífsins. Það er sérstaklega hlálegt í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra er nú að leggja fram frumvarp um aukinn aga í opinberum fjármálum en leggur fyrst fram frumvarp um fordæmalausa millifærsluaðgerð sem er skuldaniðurfellingarsullumbullið stóra sem Seðlabankinn segir að muni hafa neikvæð efnahagsleg áhrif, auka einkaneyslu þegar ekki er ástæða til að auka hana, muni leiða til hærri verðbólgu, veikara gengis og hærri vaxta til tjóns fyrir okkur öll. Hvenær ætlar hæstv. fjármálaráðherra að hefja aga? Þegar hann er búinn að fá að taka einn snúning á ábyrgðarleysinu? Eru það skilaboðin til þjóðarinnar, því að hann gengur ekki á undan með góðu fordæmi?

Það er líka ljóst að stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum veldur því að hún kemst heldur ekkert áfram með afnám hafta. Við sjáum ýmis hættuleg teikn í því máli með ræðu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra á síðustu vikum þar sem þeir eru greinilega að telja upp í það. Vegna þess að þeir fá ekkert fylgi út úr skuldalækkunartillögum sínum og eru búnir að klúðra fylgi sínu (Gripið fram í.) með flumbrugangi sínum í Evrópumálum ætla þeir að reyna að blása í fylgissókn á flokkspólitískum forsendum með afnámi hafta. Þeir gefa því undir fótinn að þeir hafi töfralausn um afnám hafta sem enginn annar hafi og nú skulum við bara bíða og sjá. Ég minni hæstv. fjármálaráðherra á það sem hann sagði á síðasta kjörtímabili. Það þarf þverpólitíska samstöðu um afnám hafta. Ég hef ekki fengið að heyra eitt orð frá honum um þær tillögur sem hann þykist hafa. Og hann er að leika sér að eldinum ef hann ætlar að koma með tillögur um haftaafnám og tefla þeim fram á flokkspólitískum forsendum.

Það sem liggur núna ljóst fyrir er að það næst engin niðurstaða í þessu máli nema með samningum. Það er engin hætta búin íslenskum hagsmunum með því að halda áfram með það samningaferli sem er vel á veg komið. Það er komið að lykilátakamálunum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur á fyrri tíð sagt að það sé í fullkomnu samræmi við ríka lýðræðishefð Sjálfstæðisflokksins að hann leiði slíkar viðræður (Forseti hringir.) þótt hann sé efnislega ósammála aðild að Evrópusambandinu. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að standa við orð sín.