143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar reglugerðina velti formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, því fyrir sér hvort það stæðist stjórnarskrána að vera með þessa víðu reglugerðarheimild og fjárveitingavald og senda það þarna í rauninni til ráðuneytis. Ég er ekki lögfræðingur en ég gæti hugsanlega séð það virka ef það er alveg klárt að aldrei megi eyða meira en 20 milljónum mínus kostnað. Ég gæti alveg ímyndað mér að þetta væri í lagi þá. En það þýðir náttúrlega að þá er enn þá verra fyrir fólk að reikna út hvað það fær hugsanlega. Auðvitað væri best og eðlilegast og skynsamlegast í viðkvæmum málum eins og þessu, því að þetta er að sjálfsögðu mjög viðkvæmt mál, þegar það liggur fyrir hvernig þetta á að vera, að málið kæmi aftur fyrir þingið og þingið færi í gegnum það og samþykkti það þannig að enginn vafi væri á því að þetta væri allt í lagi.

Menn ræddu talsvert í gær um forsendubrest. Ég man að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði að hann hefði ekki orðið fyrir forsendubresti, hann væri með verðtryggt lán og hann vissi að ef verðbólgan hækkaði þá hækkaði lánið. Ég er hagfræðingur að mennt og mér hafa alltaf fundist forsendur góðar og alltaf sagt: Það er svo þægilegt að ræða við hagfræðinga því að þeir geta alveg skipt um skoðun, þeir bara breyta forsendunum og skilja það að forsendurnar breytast, eða eitthvað þannig. Mér finnst það koma óorði á forsendurnar, rétt eins og rónar koma óorði á brennivínið, að tala um forsendubrest af þessu tagi og eins og hann eigi einungis við sérstaka hópa þjóðfélagsins.