143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:40]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir mjög góða ræðu og fróðlega. Ekki síst hlustaði ég með athygli á útskýringar hennar á greiðslujöfnun verðtryggðra lána og hugsanlegum áhrifum leiðréttingarinnar á þann hluta. Hv. þingmaður spyr hvort það sé góð ráðstöfun að greiða fyrst inn á greiðslujöfnunarhlutann.

Ég hef verið að kynna mér þetta allt saman mjög vel og þetta verður að sjálfsögðu þaulskoðað í nefndinni eins og hv. þingmaður hefur margnefnt. Eins og ég skil þetta er greiðslujöfnunarhlutinn viðbótarlán. Fólk fékk sem sagt að greiða lánið hægar niður en við höfuðstólinn bættist vaxtaberandi skuld sem fólk þarf vissulega að greiða niður einhvern tíma. Nú er spurningin: Er ekki snjallast fyrir fólk að nota þessa leiðréttingu til að lækka þann vaxtaberandi hluta, er það ekki langskynsamlegast? Ef fólk hefði val mundi það þá ekki gera það hvort sem er? Ég hugsa að það geti vel verið. Ég var reyndar að leita að þessu ákvæði um þrjú ár, hv. þingmaður nefnir líka að einhver von sé til þess að einhverjir fái afskrifað það sem út af stendur þegar upphaflegum lánstíma lánsins er lokið og svo þremur árum eftir það ef ekki er enn búið að greiða.

Ég tel ekki líklegt að margir séu í þeirri stöðu, en að sjálfsögðu gæti nefndin kallað eftir áætlun um það. Mér þykir það afskaplega langsóttur möguleiki að margir verði í þeirri stöðu, vegna þess að þeir sem lentu í þessu og eru í mestum greiðsluerfiðleikum eru þeir sem voru nýlega búnir að taka lán. Þeir eiga þá töluvert mörg ár eftir af láninu sem gætu dugað til þess að greiða þetta niður.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji það ekki hugsanlega skynsamlegast að greiða niður greiðslujöfnunarhlutann fyrst.