143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:18]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur vil ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég gleymdi að svara henni áðan um greiðslujöfnunarreikninginn. Ég get ekki séð neitt hættulegt við það þó að til að byrja með fari þetta inn á einhvern jöfnunarreikning. Sannarlega á það að koma til lækkunar á skuldum.

Hv. þingmaður bendir á að ég hafi sagt að þetta væri gegnsætt kerfi. Mér finnst að þarna hafi verið fundin góð lausn vegna þess að nú gera eiginlega allir skattskýrslur sínar rafrænt og þetta er kunnuglegt kerfi fyrir neytendur eða fjölskyldur, einstaklinga þessa lands, og það verður gert í gegnum það sama kerfi. Þess vegna sagði ég og tek undir að það er kunnuglegt og gegnsætt og ég held að fólk velkist ekkert í vafa um það hvernig það á að bera sig að. Það fær ákveðna kennitölu, alveg eins og þegar við gerum skattskýrslurnar okkar þannig að það kemur fljótt í ljós hvernig þetta verður.