143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því að við fáum loksins að ræða 1. apríl-frumvarpið svokallaða en það er frumvarpið um stærsta kosningaloforð Íslandssögunnar eða öllu heldur svikin á stærsta kosningaloforði Íslandssögunnar, 300 milljarðana frá hrægömmunum.

Það var því miður ekki hægt að ræða þetta mál 1. apríl því að forsætisráðherra fannst ekki fyndið að þurfa að mæla fyrir svikum á kosningaloforði á þeim ágæta degi. Þess vegna tafðist málið í meðförum í eina viku. Það er auðvitað miður vegna þess að það er mikilvægt að vinna málið vel. Mér þótti það líka miður vegna þess að það þýddi að ég gat ekki komið fyrr en mjög seint til umræðunnar vegna funda Norðurlandaráðs norður á Akureyri sem stóðu bæði í gærdag og í dag og ég þurfti að sækja sem fulltrúi Alþingis. Þess vegna, þótt ég sé mikill áhugamaður um skuldamál heimilanna, hef ég ekki komist til þessarar umræðu fyrr en núna að við komum að norðan með vélinni um kvöldmat. Það er mín skýring.

Virðulegur forseti. Hvar er forsætisráðherra? (Gripið fram í: Heima.) Hvar er hæstv. forsætisráðherra? Hvar er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson? Hvar er maðurinn sem stóð í þessum ræðustól og kallaði þetta 1. apríl-frumvarp heimsmet? Hvar er forsætisráðherrann þegar rætt er í tvo daga og tvö kvöld á Alþingi Íslendinga frumvarp ríkisstjórnar hans um stærsta kosningaloforð Íslandssögunnar? Hann er bara ekki á staðnum. Hann hefur mér vitanlega ekki flutt eina einustu ræðu um málið til að rökstyðja að hér sé verið að efna kosningaloforð. Hann hefur ekki verið til andsvara við þingmenn. Hann hefur ekki einu sinni, held ég, a.m.k. ekki í dag, setið við umræðuna og hlustað á sjónarmið. Þorir hæstv. forsætisráðherra ekki að vera við umræður á Alþingi um þetta mál? Treystir hæstv. forsætisráðherra sér ekki til að ræða efnisatriði málsins nú þegar heimsmetið er loksins komið fram? Sér hæstv. forsætisráðherra ekki ástæðu til að halda eina þingræðu, virðulegur forseti, eina þingræðu um frumvarp sem snýr að stærsta loforði sem hann hefur gefið fólki nokkrum sinnum? Ég kannaði það sérstaklega hvort hæstv. forsætisráðherra væri á fjarvistarskrá, vegna þess að auðvitað getur það verið að menn þurfi að sinna brýnum erindum annars staðar, en hann var þar ekki að finna. Hann er kannski farinn enn og aftur í frí. Ég auglýsi eftir hæstv. forsætisráðherra og ég bið um að forseti geri ráðstafanir til að hæstv. forsætisráðherra sé upplýstur um að óskað sé eftir nærveru hans við þessa umræðu. Það er auðvitað algerlega óboðlegt að sá sem fór fyrir í kosningabaráttunni með stór loforð gagnvart skuldugum heimilum og vann sannarlega kosningasigur í þeim kosningum, ótvírætt og fékk ótvírætt umboð kjósenda til að efna þau miklu loforð, treysti sér ekki til að vera við umræðuna um þetta mál í þinginu. Það er alveg nauðsynlegt að hann sé hér til að ræða það vegna þess að það er þannig, eins og hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins mundi sennilega orða það, að margur kjósandinn gekk í síðustu kosningum að eiga framsóknarmaddömuna í þeirri von að hún gerði hann betur efnum búinn. En framsóknarmaddaman hefur satt að segja reynst býsna rýr í roðinu fyrir margan sem þannig fór um í kosningunum, enda sést það auðvitað, bæði á viðbrögðunum við þessum tillögum hjá almenningi, því áliti sem jafnvel stuðningsmenn Framsóknarflokksins hafa á tillögunum og því fylgishruni sem Framsóknarflokkurinn hefur mátt þola í kjölfarið á margvíslegum svikum sínum á kosningaloforðum, einkanlega í þessum efnum.

Það er líka ástæða til að auglýsa eftir Sjálfstæðisflokknum. Það er þannig að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þurfti að mæla fyrir málinu og þá ræðu höfum heyrt frá Sjálfstæðisflokknum og það má þakka fyrir hana. En að öðru leyti höfum við aðeins heyrt einn sjálfstæðismann halda ræðu um þetta málefni, 80 milljarða útgjöld úr ríkissjóði Íslands, og hafa sjálfstæðismenn þó yfirleitt látið sig varða ráðstöfun á skattfé á Alþingi. Sá þingmaður heitir Pétur H. Blöndal og hann lýsti einfaldlega andstöðu við málið. Eru aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eitthvað feimnir við að tjá sig efnislega um þetta frumvarp? Skammast þingmenn Sjálfstæðisflokksins sín fyrir þau hrossakaup við Framsóknarflokkinn að hafa gengist inn á þetta klúður, sem maður hlýtur að kalla svo, til að komast í ríkisstjórnarmeirihlutann með Framsóknarflokknum? Eru engir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ætla sér að rökstyðja þetta frumvarp aðrir en formaðurinn við framsöguna? Ég kalla eftir því. Þetta er svo stórt og umfangsmikið mál að það er mikilvægt að um það fari fram vönduð umræða og það komi sem flest sjónarmið þar fram og auðvitað ætlast maður til þess að stjórnarliðar fylgi málum sínum eftir í umræðum í þinginu en láti ekki fjármálaráðherrann sitja einan uppi með ábyrgðina á málinu.

Þetta frumvarp er það sem hæstv. forsætisráðherra kallaði í þessum ræðustól á síðasta ári, eftir kosningar vel að merkja, heimsmet. Það liggur nú fyrir að það er langt í frá að vera það. Þessar aðgerðir eru umfangsminni en þær aðgerðir sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili og hafði forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn allur þó mikil orð um hvað það hefði verið lítið og illa gert. Heimsmet er því sannarlega ekki á ferðinni og það má út af fyrir sig einu gilda ef það kæmi að notum og ef staðið væri við það sem lofað var fyrir kosningar. En hverju var lofað fyrir kosningar? Jú, það voru 300 milljarðar. (Gripið fram í: Nei.) Í svigrúm frá hrægömmum. Ég heyri að einn þingmanna Framsóknarflokksins kallar hér fram í nei og ég hvet þá sem hlusta á þessar umræður heima í stofu til að fara á netið og hlusta á yfirheyrslu yfir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, í Forystusætinu 10. apríl 2013 þar sem hann ræðir sérstaklega og er spurður sérstaklega hvort um sé að ræða 300 milljarða svigrúm frá hrægömmum. Hann ítrekar að það sé „það sem við boðum“, eins og ég held að hann segi orðrétt „þetta er stefna okkar“. Svo getur hver og einn metið fyrir sig hvaða fyrirheit voru í gefin í því efni.

Það sem er hins vegar um leið ekki verið að efna er að hér sé verið að taka fjármuni frá hrægömmum. Sannarlega er þetta ekki niðurstaðan úr neins konar snúningi sem hefur verið tekin á erlendum kröfuhöfum. Hér er einfaldlega um að ræða framlög úr ríkissjóði Íslands, framlög af skattfé og þess vegna gildir um þetta mál allt annað heldur en ef um einhvers konar ráðstöfun á ávinningi úr samningum við erlenda kröfuhafa væri að ræða. Vissulega hefur verið uppi viðleitni til að skattleggja þrotabúin á móti þessum útgjöldum en þá er að því að hyggja að enn er óljóst hvort þau áform ganga eftir. Sá skattur hefur enn ekki verið lagður á. Þrotabúin hafa enn ekki fallist á að löglega sé um þá skattlagningu búið. Þau hafa enn ekki innt neinar greiðslur af hendi og þess vegna er það að minnsta kosti umhugsunarefni að stofna til útgjalda upp á 80 milljarða áður en menn hafa tryggt tekjuþátt málsins.

En hverju öðru var lofað? Því var líka lofað að leiðrétta forsendubrestinn á verðtryggðum lánum heimilanna. Og hversu umfangsmikil er sú aðgerð? Aðgerðin er upp á 72 milljarða. 8 milljarðar munu síðan fara í vexti af þeim 72 milljörðum á næstu fjórum árum meðan ríkissjóður er að borga það niður. 72 milljarðar eru 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna. — 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna. — Þær voru 1.257 milljarðar 31. desember sl. Þetta er auðvitað enn þá minna hlutfall af heildarskuldum heimilanna sem námu um sl. áramót 1.920 milljörðum. Þetta eru 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna. Kannast einhver sem hlustar á þessa umræðu við að þingmenn Framsóknarflokksins hafi farið um landið og boðað 5% leiðréttingu á forsendubrestinum eða að forsendubresturinn væri um 5,7%? Eða kannast fólk við það að hafa heyrt Framsóknarflokkinn tala um aðrar prósentutölur í því samhengi? Kannast þeir sem á okkur hlýða við að hafa heyrt Framsóknarflokkinn tala um, eða öllu heldur forsætisráðherra alveg sérstaklega, upprisu millistéttarinnar? Þessi aðgerð felur í sér liðlega 250 þús. kr. stuðning að meðaltali á ári í fjögur ár fyrir hvert það heimili í landinu sem skuldsett er. Það er rúmlega helmingur heimila í landinu. 250 þús. kr. á ári í fjögur ár. Er það upprisa millistéttarinnar? Er það leiðrétting á forsendubrestinum sem heimilin í landinu urðu fyrir í hruninu? Auðvitað ekki, langt því frá. Því miður eru þetta aðeins um 25% efndir, 5% af 20%, 72 milljarðar af 300 milljörðum. Því miður eru þetta ekki hrægammar, þetta er skattfé.

Það gerir líka að verkum að það hvernig þessum fjármunum er ráðstafað er alvarlegt. Í stað þess að hér sé verið að grípa til almennrar aðgerðar sem leiðréttir verulegan forsendubrest á ákveðnu tímabili á kostnað fjármálastofnana er verið að nota takmarkaða fjármuni úr ríkissjóði til að styðja við heimilin í landinu. Og þegar dæmið lítur þannig út eru kolrangar aðferðir notaðar í þessu frumvarpi við að ákveða hverjir þurfa stuðnings við og hverjir ekki.

Hér hefur verið nefnt að leigjendur hafi verið sniðgengnir. Námsmenn hafa verið sniðgengnir. En það sem mér hefur þótt alvarlegast er að fólkið sem sannarlega hefur verið í mestum erfiðleikum, margt hvert, fólk sem fór í gegnum 110%-leiðina svokölluðu, því var ekki sagt fyrir kosningar af Framsóknarflokknum að það ætti að draga frá leiðréttingu til þeirra allt það sem það hefði fengið í þeim samningum sem það gerði á síðasta kjörtímabili. Nei. Framsóknarflokkurinn sagði skuldsettustu heimilum í landinu, þeim fimm þúsund heimilum sem útilokuð eru frá aðgerðum þessum, ekki frá því fyrr en eftir kosningar. Það gerði hv. þm. Frosti Sigurjónsson þegar hann svaraði fyrirspurn minni um efnið eftir kosningar. Sannarlega kom það mörgum á óvart því að margir af frambjóðendum Framsóknarflokksins, þingmenn hans og ráðherrar höfðu farið mörgum orðum um það hversu illa einmitt þau heimili væru stödd sem hefðu farið í gegnum þessa leið og væru enn með óviðráðanlega skuldabyrði, og hversu gríðarlega mikilvægt væri að grípa til ráðstafana fyrir þau. Og hvert er síðan verk þessa sama fólks? Það er að gera alveg sérstaka ráðstöfun til að undanskilja það fólk sem skuldaði 110% af íbúðarhúsnæðinu sínu á ákveðnum tíma og hefur síðan sætt hækkunum vegna verðbólgu og vaxta ofan á það, að undanskilja það alveg sérstaklega aðstoðinni en tryggja síðan um leið að jafnvel fólk sem greiðir auðlegðarskatt á hundruð millj. kr. í hreinni eign fái þessi framlög úr ríkissjóði. Það er býsna sérstakt.

Stærstu vanefndir Framsóknarflokksins eru náttúrlega þær að hafa gengið til samstarfs um ríkisstjórn án þess að efna loforðið um afnám verðtryggingar og samið við Sjálfstæðisflokkinn um ríkisstjórnarmyndun án þess að semja um afnám verðtryggingar, vegna þess að það vita skuldarar á Íslandi auðvitað af biturri reynslu að verðtryggingin er vítahringur. Margir af þingmönnum og frambjóðendum Framsóknarflokksins hafa í ítarlegu máli farið í gegnum það hvernig það getur komið í bakið á almenningi ef ráðist er í aðgerðir sem eru verðbólguhvetjandi, eins og þessar aðgerðir eru sannarlega, án þess að afnema verðtrygginguna og bjóða því fólki sem er með verðtryggð lán að flytja sig yfir í óverðtryggt áður. Þetta er einfalt mál, sagði hæstv. forsætisráðherra. Þetta er ekki flókið, sagði hæstv. forsætisráðherra, fyrir kosningar. Ári síðar bólar ekkert á efndum.

Virðulegi forseti. Ég hef aðeins rakið örfá atriði um allar þær vanefndir sem er að finna í þessum málatilbúnaði öllum og ítreka það sem ég sagði hér í síðustu viku: Þetta eru 25% efndir. Það eru 75% svik.