143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er algjörlega ótrúlegt að hlusta á hv. þm. Þorstein Sæmundsson. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég verð algjörlega undrandi þegar ég hlusta á þingmanninn tala hér í ræðustól.

Hann snýr ekki út úr, hann segir rangt frá umræðum sem hér hafa verið. Og hann er ekki að tala við þingsalinn, hann er að tala við ykkur sem heima sitjið: Finnst ykkur það? Og hann segir að hér hafi einhver sagt að það væru há laun, að það væri hátekjufólk sem væri með 8 milljónir á mánuði samanlagt. Það sagði það enginn. (Gripið fram í: Á ári.) — á ári, fyrirgefið þið. (Gripið fram í: Jú.) Það sagði það enginn. (Gripið fram í: Jú, jú.)

Það er náttúrlega ekki hægt að tala við þetta fólk, það er ekki hægt að tala við ykkur vegna þess að þið hafið rangt eftir í hvert einasta skipti næstum því sem þið opnið munninn.

Virðulegi forseti. Þessar tillögur eru hér lagðar fram. Við vitum alveg hvað þær eru. En það er alveg undarlegt að við megum ekki hafa skoðun á tillögum þessara hv. þingmanna Framsóknarflokksins. Þá verða þeir bara alveg gasalega móðgaðir og segja: Hvað er hér í gangi, vitið þið ekki að við erum að ræða þetta, vitið þið ekki hvað okkur þykir vænt um leigjendur? En ég meina, það er ekkert í þessu fyrir leigjendur. Og það er alveg klárt að einhverjir eiga að fá 4 millj. kr. út úr þessu og það er bara hálaunafólk sem getur fengið það, (Gripið fram í.) stóreignamenn, það er svoleiðis, virðulegi (Gripið fram í.) þingmaður. (Gripið fram í.) Það er svoleiðis. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Er ekki hægt að fá hljóð hér meðan maður talar? Er það ekki dónaskapur af þingmanninum að vera blaðrandi framan í mann þegar maður er í ræðustól? Og ég vildi óska að hv. þingmaður hefði einhvern tíma rétt eftir þegar hann kemur í þennan stól.