143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef fengið veður af því og hef heyrt því haldið fram hér í þingsal að það sé mikil ánægja með minnkandi atvinnuleysi á landinu. Því ber vissulega að fagna en ég velti fyrir mér hvort þær tölur sem verið er að horfa á séu raunsannar. Ég vil nota tækifærið undir þessum dagskrárlið til að lýsa yfir miklum áhyggjum yfir þeim fjölda fólks sem treystir orðið á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna frekar en grunnframfærslu sína og sinna. Hjá Reykjavíkurborg er talan komin upp í 3.350 einstaklinga sem treysta á fjárhagsaðstoð. Atvinnulausum án bótaréttar fjölgaði um 231 á árunum 2012–2013. Sá aldurshópur sem stækkar hvað hraðast í því efni er ungt fólk á aldrinum 18–24 ára.

Sömu sögu er að segja í Hafnarfjarðarbæ. Frá árinu 2007 hefur fjöldi einstaklinga sem treysta á fjárhagsaðstoð margfaldast. Milli áranna 2012 og 2013 fjölgaði einstaklingum í þeim hópi um 30% og eins og víða annars staðar er stærsti hópurinn ungt fólk. Þegar þessar tölur eru rýndar verður manni óhjákvæmilega hugsað til Finnlands og reynslu Finna af kreppu og þeim afleiðingum sem þeir þurftu að takast á við í áratugi eftir það áfall sem þeir gengu í gegnum. Þar var það unga fólkið sem hlaut mesta skaðann. Það er mikilvægt að grípa inn í þessa þróun og huga að þessum málum, styrkja og styðja við þennan stóra hóp ungs fólks, styðja það til sjálfshjálpar og virkni, hjálpa því að öðlast tilgang og bjartsýni í lífinu. Það er ávísun á fátæktargildru að festast í viðjum fjárhagsaðstoðar til lengri tíma og hefur ýmsar aðrar hliðarverkanir eins og við þekkjum öll. Það þarf sameiginlegt átak allra, Alþingis, sveitarfélaga, atvinnulífsins og annarra hagsmunaaðila til að stöðva þessa vondu þróun og ég vil hvetja Alþingi í að vera leiðandi í allri þeirri vinnu sem fram undan er.