143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gær féll dómur hjá Evrópudómstólnum sem varðaði EES-tilskipun sem kveður á um að lönd skuli hafa svokallaða gagnageymd. Þessi tilskipun hefur ekki verið tekin upp hérlendis sem betur fer en Ísland er hins vegar með gagnageymd samkvæmt upplýsingalögum. Við píratar fögnum þessum dómi enda hefur alltaf verið á stefnuskrá okkar að afnema gagnageymd. Við teljum hana ekki vera í samræmi við ákveðin grundvallarborgararéttindi, nefnilega friðhelgi einkalífsins. Því fagna ég því sérstaklega að heyra hér hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks vekja máls á þessu efni og ég vænti þess og vona og treysti því að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd muni taka á málinu með réttum hætti.