143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

framtíðarfyrirkomulag innanlandsflugs.

400. mál
[17:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þingmanni fyrir að taka þetta mál upp hér. Það er hárrétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að þessi mál eru gríðarlega stór, fyrir samfélagið allt, ekki síst fyrir samfélagið hér í Reykjavík en líka um allt land. Það ber vel í veiði því að það er ekki einungis svo að sú sem hér stendur hafi reynslu af sveitarstjórnarmálum í Reykjavík heldur þekkir hv. þingmaður sem ber fram fyrirspurnina málið jafn vel og ég.

Hvað varðar úttektina sé ég enga ástæðu til annars en að hún hafi farið fram með trúverðugum og eðlilegum hætti. Ég ítreka hins vegar það sem fram kemur í úttekt Capacent og byggir á því að hér er um að ræða úttekt sem gerir aðallega ráð fyrir kostnaði og ábata, sýnir fjárhagslega stöðu málsins en tekur ekki mið af því sem við höfum verið að gera að undanförnu í samgönguáætlun og var nýlega kynnt, sem er svokölluð félagshagfræðileg úttekt. Ég veit ekki alveg, hv. þingmaður og virðulegur forseti, hvort niðurstaðan yrði eins ef menn tækju mið af öllum þeim þáttum sem koma inn í slíka greiningu.

Að því sögðu held ég að mestu máli skipti sú vinna sem hafin hefur verið á vettvangi Reykjavíkurborgar og ríkisins. Nú er starfandi nefnd undir forustu Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi ráðherra, en nefndin samanstendur af fulltrúum ríkisins, fulltrúum Reykjavíkurborgar, Icelandair Group og síðan aðilum sem haft hafa aðkomu að þessu risastóra máli með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina.

Ég hef lagt áherslu á það að við reynum að finna sátt í þessu stóra máli og geri það enn vegna þess að ég átti mjög gott samstarf við Reykjavíkurborg í kringum þetta verkefni. Ég lít svo að sátt um risastór mál sé sigur en ekki ósigur. Ég held því að það skipti miklu máli að við náum sátt, að við virðum skipulagsvald Reykjavíkurborgar í þessu máli eins og við virðum skipulagsvald annarra sveitarfélaga, að við sýnum því skilning að þessi vinna er í gangi og leyfum henni að klárast. Mér finnst það skipta mjög miklu máli.

Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að í þessari úttekt eru bornir saman nokkrir kostir. Einn af þeim kostum er að miðstöðin flytjist til Keflavíkur. Vegna þess að hv. þingmaður spyr hvort einhver kosturinn hugnist þeirri sem hér stendur betur en aðrir þá hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að innanlandsflugvöllur skuli vera í Reykjavík. Ég er ekki hlynnt því að innanlandsflugvöllurinn fari til Keflavíkur. En ég vil hins vegar, eins og ég sagði áðan, virða þá vinnu sem í gangi er og þar eru menn og konur að skoða alla kosti. Ég tel það mikilvægt fyrir Reykjavíkurborg að hafa flugvöll, það segi ég bæði sem þingmaður Reykjavíkur en ekki síður sem fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík. Það skiptir hins vegar líka máli fyrir Reykjavík hvar sá flugvöllur er staðsettur. Þess vegna þarf að finna fleti á og lausn á málinu og leið sem við getum náð sátt um.

Oft er spurt af hverju í ósköpunum menn þurfi að leita sátta í þessu máli. Það er vegna þess að hið augljósa mun gerast, þ.e. ef við gerum það ekki munum við í huganum og í hinni pólitísku umræðu flytja flugvöllinn á fjögurra ára fresti. Það gengur einfaldlega ekki. Það þarf að finna einhverja niðurstöðu sem allir geta lifað bærilega vel við.

En tölurnar eru auðvitað afar háar varðandi þann þjóðhagslega ábata, sem hér er þó einungis mældur í fjármagni, ekki tekið mið af félagshagfræðilegum niðurstöðum, sem gætu, eins og ég benti á áðan, verið aðrar. Þær tölur hafa hins vegar sést áður. Það er ekkert nýtt í þessari niðurstöðu. Ég man ekki betur en að á þeim tíma sem samráðsnefnd um flugvöllinn undir forustu Helga Hallgrímssonar hafi einmitt verið með svipaðar tölur. Oft er talað um að Reykjavíkurborg hafi það eitt að markmiði að koma vellinum úr Vatnsmýrinni, en það er ekki aðalmarkmið Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hefur að sjálfsögðu viljað skipuleggja landsvæði sitt þannig að það nýtist sem best íbúum borgarinnar. Það hefur verið mikill vilji til þess og komið ítrekað fram í könnunum að íbúar í Reykjavík vilja gjarnan fá að vera búsettir í ríkara mæli nálægt miðju höfuðborgarinnar. Ég þekki það úr skipulagsmálum í Reykjavík að það er engin önnur hugmynd að baki þeim vilja Reykjavíkurborgar en að reyna að skipuleggja það landsvæði sem við höfum með tilliti til borgarbúa.

En fyrst og síðast eru skilaboð mín þessi: Vinnan er í gangi á milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Sú vinna gengur samkvæmt mínum upplýsingum afar vel. Mér finnst skipta miklu máli að við stjórnmálamenn leyfum þeirri vinnu að klárast og freistum þess að finna sátt í þessu stóra máli.