143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér tækifæri til að veita andsvar, sofandi lítið á vaktinni vegna þess að ég var að undirbúa mig fyrir ræðu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur aðeins út í hugmyndir um Sundabraut og það sem hefur komið fram þar. Varðandi þær hugmyndir, ef Sundabrautin kemur, er reiknað með einkaframkvæmd og að enn og aftur komi veggjald á vesturleiðina. Þar höfum við, ég og fleiri, fjölmargir hafa verið að bíða, verið að bíða eftir því að veggjald verði lagt af, þ.e. í Hvalfjarðargöngunum, og það á að gerast 2018. En þá eru komnar hér upp hugmyndir, að vísu ekki í þessari samgönguáætlun en frá stjórnarþingmönnum, um að fara í framkvæmdir við Sundabraut með veggjaldi. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni skoðun hans á þeim hugmyndum.

Við erum sammála um flesta þætti hvað varðar samgöngur á Vestfjörðum og þar er Vestfjarðavegur 60 í forgangi. Þar er enn sami flöskuhálsinn, þ.e. að ekki hefur komið úrskurður um hvort fara megi í gegnum Teigsskóginn eða gömlu B-leiðina svokölluðu. Jafnvel þó að ráðherra hafi sýnt mikla viðleitni til að finna lausnir á því þá er hún ekki komin. En mig langar aðeins að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því verkefni.