143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:25]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa ekki nefnt hv. þm. Guðbjart Hannesson fullu nafni. Ég þakka þingmanninum enn og aftur fyrir andsvarið. Svo sannarlega er ég honum sammála og er heilluð af þeirri hugmynd ef við gætum sammælst um það að ganga hraðar í að lagfæra Uxahryggjaleiðina og þetta með hringrásina, eins og hann gat um, er einmitt það albesta varðandi ferðamennsku og bara flutninga fólks yfirleitt, að geta farið í hring.

Mig langar aðeins að geta um það að okkar fræga skáld Bjarni Thorarensen amtmaður stofnaði einmitt félag, Fjallvegafélagið, mig minnir 1831, og gerði það á afmæli kóngsins því að hann var svo mikill konungssinni. Hann vildi reyna að gera þessar leiðir greiðfærar, auðvitað var þá talað um með hestum. Þetta er sem sagt forn leið, skemmtileg leið, höfðar til manns og ég get ekki sagt annað en að mér lítist mjög vel á hugmynd þingmannsins.

Ég veit ekki hvað ég þarf svo sem að endurtaka varðandi Sundabrautina. Vitaskuld er nauðsynlegt að þetta komi hér fram vegna þess að núna er m.a. verið að setja fram í skipulaginu hjá borgarstjórn Reykjavíkur uppbyggingu í Vogahverfi. Það getur haft áhrif á hvaða leið menn komast að niðurstöðu um að velja fyrir Sundabraut. Við megum engan tíma missa. Ég vil bara segja það hér að mér líst engan veginn illa á það skipulag sem þar er búið að setja fram, en brá við með Sundabraut. Verður búið að loka fyrir einhverja möguleika?