143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:12]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessar tillögur. Þær eru um margt ágætar. Samgöngumál eru mikilsverð og má segja að þetta sé eitt aðalbyggðamálið og eina raunhæfa byggðastefnan, að byggja upp samgöngur.

Mig langar aðeins að nefna örfá atriði án þess að lengja umræðuna mikið. Hér hefur margt komið fram, menn hafa talað hér um reiðvegi og hjólreiðavegi. Ég er hestamaður þannig að ég get alveg tekið undir það að gott væri að fá meira fjármagn í reiðvegi. En meðan við höfum hér 698 einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins finnst mér svolítið áhyggjuefni að ekki skuli vera gert meira í því að fækka þeim, sérstaklega á þjóðvegi 1. Ég er ekki alveg sáttur við það.

Hérna á fyrstu síðu eru framlög til jarðganga. Ég fagna því að sjálfsögðu að aukið fjármagn er til þeirra mála en ég verð að gera athugasemd við forgangsröðunina. Ég get ekki stillt mig um að segja að ég hefði viljað sjá aðra forgangsröðun. Ég er ánægður með Norðfjarðargöngin, að þau skuli vera komin þarna og farið af stað með þau, en ég hefði viljað sjá Dýrafjarðargöng á undan jarðgöngum undir Húsavíkurhöfða. Við erum nýbúin með Héðinsfjarðargöng, svo koma Vaðlaheiðargöng og svo á næst að fara í gegnum Húsavíkurhöfða. Ég hefði haldið, miðað við atvinnuástand á þessum svæðum, að göng mundu gera meira gagn á Vestfjörðum og það fyrr.

Eins er með hafnarframkvæmdir, á bls. 4. Þar hefði ég viljað sjá Helguvíkurhöfn, ég sakna þess að hún skuli ekki vera þar og er ekki sáttur við að menn skuli enn vera að gera hana að einhverjum pólitískum — ja, ég veit ekki hvað, pólitískum skollaleik. Ef við miðum bara við atvinnuástand á því svæði hefði ég haldið að þar væri þörf á uppbyggingu. Ég hefði viljað sjá þá höfn framar. Ég trúi því nú að það komi að því að ríkið setji eitthvað í þær framkvæmdir.

Svo vil ég aðeins nefna fiskihafnirnar. Aðstöðumunurinn er svo gríðarlegur, tekjuöflunarmöguleikar eru svo miklir hjá sumum höfnum. Í fiskihöfnunum sem við nefnum svo, þá á ég við þær sem eru ekki með útflutning af neinu viti, eru mannvirki sem komin eru á tíma. Stálþil í mörgum af þeim höfnum eru komin á tíma og orðin hættuleg og orðin ónothæf. Ég skora því á innanríkisráðherra að auka framlag til þessara hafna.

Í nýju frumvarpi um hafnalög er gert ráð fyrir 60% kostnaðarhlutdeild ríkisins, en hún var áður 90%, fyrir utan þessi síðustu ár sem þetta var fellt úr. Ég skora á innanríkisráðherra að endurskoða það og ég skil reyndar ekki alveg rökin fyrir 60% hlutdeild þar sem tillögur frá fulltrúum Hafnasambands Íslands í þeirri nefnd sem endurskoðaði núgildandi hafnalög hljóðuðu upp á 90%.

Að lokum langar mig að spyrja innanríkisráðherra hvernig henni lítist á nýjar hugmyndir um Þorlákshöfn. Þar eru menn með hugmyndir um að í stað þess að byggja nýja farskipahöfn, stórskipahöfn, geti þeir á mun hagkvæmari hátt útbúið lægi og dýpkað innan hafnar þannig að allt að 200 metra skip komist þar inn. Ég veit að það er nánast búið að hanna þetta og teikna í Siglingastofnun og væri gaman að heyra álit ráðherra á þeirri hugmynd og þessu verki í lokaræðu hennar á eftir.