143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna sem verið hefur í dag og í kvöld um þá tillögu til þingsályktunar sem hér liggur fyrir. Kannski er það helst um umræðuna að segja, og kemur svo sem ekki á óvart og ég held að það sé nokkuð hefðbundin umræða um samgönguáætlun, að öll vildum við svo gjarnan geta gert miklu betur. Ég held að það rammi ágætlega inn umræðuna þar sem allir hafa nefnt hluti sem mættu vera framar á listanum eða hefðu átt að vera á listanum o.s.frv.

Ég fór yfir það í ræðu minni fyrr í dag að ég tæki undir það og að ég tæki líka undir að fjármagn hefði verið af of skornum skammti til samgöngumála undanfarin ár. Alveg sama hvar í flokki við stöndum erum við öll sek um að hafa afgreitt samgönguáætlun þannig, en það er auðvitað vegna þess að við höfum staðið frammi fyrir verkefnum sem hafa verið þess eðlis að það þarf ekki koma neinum á óvart að gripið hafi verið til þeirra ráða. Samgöngukerfi okkar hefur þurft að þola það að láta undan í þeirri hagræðingu sem hefur verið á undanförnum árum. Ég vona innilega og ef marka má orð þingmanna úr öllum flokkum hér í dag og kvöld er það sameiginlegur vilji okkar allra að gera betur á næstu árum, en við skulum þó alveg vera meðvituð um að öll þau góðu verkefni sem nefnd hafa verið í dag og í kvöld komast ekki til framkvæmda í bráð.

Mig langar hins vegar, vegna þess að ég held að ég hafi ekki gert það nægilega vel í fyrstu ræðu minni, að nota þetta tækifæri þegar ég reyni að svara nokkrum af þeim helstu spurningum sem fram hafa komið til að þakka samgönguráði sem auðvitað vinnur þessa tillögu til þingsályktunar og leggur hana fram til ráðherra sem síðan kemur henni til þingsins, og þakka því fólki sem að því verki hefur komið, jafnt embættismönnum sem formanni samgönguráðs, Birnu Lárusdóttur. Það er mikil vinna sem liggur á bak við svona áætlun og ég tók eftir því og tek undir það sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir vakti athygli á fyrr í umræðunni að það mættu margar aðrar áætlanir er lúta að verkþáttum ríkisins vera eins skipulega og markvisst fram settar eins og þingsályktunartillaga til samgönguáætlunar er iðulega.

Mig langar aðeins í byrjun að staldra við það sem nokkuð hefur verið rætt um, eðlilega, í dag og í kvöld sem er fjármögnun samgönguframkvæmda. Ég vil árétta að hugtakið sem notað er um annars konar fjármögnun en beina opinbera fjármögnun sem er þá ekki sótt til baka, ef við getum orðað það þannig, með veggjöldum — þetta er orð sem er notað yfir það sem heitir einkaframkvæmd. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni undir lok umræðunnar að það eru margar leiðir færar í því. Þegar sú sem hér stendur er að tala um að líta til annarra leiða varðandi fjármögnun samgönguframkvæmda til að koma þeim hraðar til framkvæmda og til að tryggja að almenningur njóti þeirra fyrr er ég ekki einungis að tala um eitt form einkaframkvæmda. Ég er líka að tala um það sem gætu verið leiðir eins og Hvalfjarðargöng eða leiðir sem voru nefndar varðandi göng við Seyðisfjörð, og það er hárrétt sem kom líka fram í ræðu þess hv. þingmanns að til dæmis slík framkvæmd gæti aldrei verið nema að hluta til. Ég hef látið fara yfir það og mér skilst að það gæti aldrei orðið meira en kannski 20% af kostnaði við framkvæmdina sem væri hægt að fá út úr veggjöldum en það væri hugsanlegt að flýta slíkri framkvæmd með einhvers konar samstarfi, með því að nálgast það þannig að greitt væri fyrir framkvæmdina. Það er engin ein heilög leið í þessu og eins og ég sagði í upphafi umræðunnar í dag erum við að skoða þau mál undir forustu Helgu Valfells þar sem við lítum til ólíkra leiða. Það er meira en líklegt að menn leggi til fleiri en eina leið í því, enda er það í raun og veru þannig í því landi sem við búum í að segja má að eina svæði landsins sem gæti þolað það sem fræðingarnir kalla hreina einkaframkvæmd er suðvesturhornið, bara vegna þess hvernig umferðin er. Við viljum einnig líta til framkvæmda víðar um landið og þá getur þurft að koma til annars konar leiða. Þetta vildi ég taka fram í upphafi.

Það sem allir hafa nefnt og ég tek líka undir eru hinir svokölluðu tengivegir, að ekki sé nægilega mikið fjármagn lagt í þá og óþarflega lítið og það skapi hættur og óöryggi. Við sáum það síðast í fréttunum í kvöld þegar verið var að fara yfir vegi á Norðurlandi sem eru auðvitað ekki í nægilega góðu ástandi eða ásigkomulagi. Ég tek undir það allt saman og ég tel að okkar bíði talsvert verkefni við að koma þeim vegum í viðunandi horf. Ég hef sagt áður og get endurtekið það að ég tel að við séum komin á þann stað hvað varðar marga slíka vegi að vera aðeins farin að stefna öryggi í hættu. Við verðum að átta okkur á því og vera meðvituð um það. Hér er nefnt að forgangsraða eigi í þágu ákveðinna verkefna. Í þessari þingsályktun er mjög markvisst reynt að forgangsraða í þágu aukins öryggis en við búum hins vegar við það og ég bý við það sem innanríkisráðherra og þarf að taka mið af því að framlagið sem þingið hefur lagt til þeirra verkefna er ekki meira en kemur fram á þessu blaði og kemur fram í þessu gagni. Ég held að okkur takist ágætlega að vinna úr því fjármagni og ég tel reyndar að það hafi tekist ágætlega að vinna úr því takmarkaða fjármagni sem menn hafi haft til ráðstöfunar. En staðreyndin er hins vegar sú að viðhald og öryggi þarf að bæta og huga þarf betur að rekstri þeirra samgöngumannvirkja sem við eigum þegar í dag.

Spurt var fyrr í umræðunni um það ríkisrekna innanlandsflug sem talað er um í áætluninni, hvort öruggt væri að allar þær leiðir yrðu boðnar út. Ég get því miður ekki svarað því nákvæmlega núna. Það er verið að fara yfir það á vettvangi ráðuneytisins en ég get svarað því þegar nær dregur vori. Það er miðað við að það verkefni taki kringum fjórar vikur í viðbót og þá verði komin niðurstaða í það. Við erum að skoða það og sérstaklega hefur verið til skoðunar flugið til Sauðárkróks ásamt fleiri þáttum sem verið er að rýna.

Ég vil líka fagna því hversu margir hv. þingmenn komu inn á það sem ég held að skipti mjög miklu máli, og það er ánægjulegt, eins dapurlegt umræðuefni og það er, það sem lýtur að slysum í umferðinni. Öll viljum við bæta þar úr en það er alveg ljóst að þingheimur er sammála og telur að það sé mikilvægt og ég fagna því. Menn geta treyst því að það er hluti af þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir.

Nokkuð var rætt um Vestmannaeyjaferju. Ég fór það ítarlega yfir það í ræðu minni fyrr í kvöld og ætla ekki að staldra lengi við það. Það er hins vegar svo að skoði heimamenn, það hefur komið ákveðið frumkvæði frá heimamönnum og aðilum tengdum Vestmannaeyjum, hvort aðilar þar, hvort sem það eru þá sveitarfélög, fyrirtæki á svæðinu eða aðrir aðilar, hafi áhuga á því að koma að því t.d. í formi einhvers konar einkaframkvæmdar eða samstarfs er ljóst að það getur hraðað verkefnunum. Það er þannig með flestar þær samgöngur sem við erum að skoða í annars konar fjármögnun. En hönnunin er, eins og ég sagði frá fyrr í umræðunni, í útboði núna og miðað er við að það liggi fyrir niðurstaðan úr því verki núna á vordögum og að við stöndum frammi fyrir einhvers konar hugmyndum um hvernig slík ferja gæti litið út og verið í hönnun í árslok.

Hér nefndu margir hv. þingmenn, og ég tek undir það, þetta er alveg hárrétt, að allt í kringum almenningssamgöngurnar í þessari áætlun hefur verið eilítið snúið. Það er hins vegar fyrst og síðast því um að kenna eða því að þakka að það hefur verið ákveðið, og var ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar, að feta nýja leið í því og leggja aukna áherslu á almenningssamgöngur. Ég skynjaði mjög fljótt í starfi mínu sem innanríkisráðherra að mjög mikil sátt var um þetta víðast hvar á landinu þannig að ég lagði áherslu á að reyna að halda því áfram og það er gert í þessari áætlun. Það er rétt að það hefur eilítið verið lækkað á höfuðborgarsvæðinu en það er hin almenna hagræðingarkrafa sem gerð er á öll önnur verkefni þar, þannig að það var ekki tekið út fyrir hvað það varðar.

Varðandi það sem nefnt var um Þorlákshöfn og höfnina þar er auðvitað ákveðið fjármagn til dýpkunar þar á næsta ári en það sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson nefndi sérstaklega, þær hugmyndir sem hann var að tala um hafa verið kynntar að hluta til fyrir Vegagerðinni en ekki hefur verið tekin formleg eða efnisleg afstaða til þeirra. En margt af því sem hann nefndi í ræðu sinni er sannarlega athyglisvert og eitthvað sem við viljum rýna frekar.

Svo vil ég rétt í lokin, af því að mörgum hv. þingmönnum er eðlilega umhugað um sín svæði og hafa áhyggjur af framkvæmdum þar, taka undir það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi áðan og ég held að við þurfum líka að staldra við og það er höfuðborgarsvæðið. Ef menn skoða af mikilli sanngirni tölurnar í samgönguáætlun sjá þeir að Reykjavík hefur farið fremur illa út úr því (Forseti hringir.) í gegnum tíðina og kannski ekki fengið það fjármagn til brýnna verkefna sem þörf er á. En þá megum við heldur ekki gleyma því að höfuðborgarsvæðið gerði ákveðið samkomulag við innanríkisráðuneytið á síðasta kjörtímabili um að þetta fjármagn færi frekar (Forseti hringir.) í almenningssamgöngur en í framkvæmdir á svæðinu.