143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð hans fyrir málinu og framlagningu þess þó að það eigi í meginatriðum uppruna sinn hjá öðrum ráðherra í annarri ríkisstjórn og á öðrum tíma. Í sjálfu sér á það líka uppruna sinn enn lengra frá og það er kannski það sem gefur fyrsta tilefni til að staldra við þetta mál að um er að ræða innleiðingu á þáttum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er málefni sem hefur verið nokkuð til umfjöllunar á undanförnum vikum og mánuðum og af mörgum ástæðum. Ein þeirra er sú hversu treglega hefur gengið hjá okkur Íslendingum að innleiða þær gerðir sem okkur ber og hversu illa hefur tekist, sérstaklega á síðustu missirum, að vinna með þessi mál í þinginu og fá þau fram til afgreiðslu og líka hversu langt hefur liðið frá því að gerðirnar hafa orðið til í Evrópusambandinu þar til þær loksins koma hingað inn í þingið.

Ég held að sú lága einkunn sem við fengum nýverið í þessum efnum gefi okkur hér í þinginu alveg sérstakt tilefni til að fara yfir vinnubrögðin og bæta þau öll til mikilla muna. Það er algerlega óviðunandi fyrir okkur að vera í þessum efnum þeir skussar sem raunin er. Það er býsna slæmt að sjá beinlínis að á umliðnum missirum og árum hafa verið hér í þinginu innleiðingamál á flóknum EES-málum, sem hafa farið í gegnum vinnu í Stjórnarráðinu, sem hafa farið í gegnum umræðu í þingsalnum, gengið til nefndar, verið leitað eftir athugasemdum og sjónarmiðum um, unnið úr vel og vandlega en hafa ekki verið kláruð. Stöðvuð hefur verið lögfesting sem við höfum skuldbundið okkur til að standa við og erum við þá í sumum tilfellum að bregðast þeim skyldum sem við höfum axlað í helsta viðskiptasamningi okkar, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, og það í raun bara fyrir meinbægni stjórnarandstöðunnar í sumum tilfellum hér á lokametrum þinghaldsins, þegar í málum hefur einfaldlega verið neitað um afgreiðslu í tímaþröng og knúinn fram endurflutningur á þeim án þess að um neinn teljandi ágreining hafi verið að ræða.

Mér virðist að þetta mál hér sé býsna gott dæmi um það, ekkert hefði átt að standa í vegi fyrir því að það hefði fengið afgreiðslu hér síðastliðinn vetur. Þetta eina litla atriði sem varðar C-flokkinn, og kunna að hafa verið skiptar skoðanir um, ég skal ekkert deila um það, hefði þá bara komið fram sem sjálfstæð breyting á löggjöfinni frá nýrri ríkisstjórn eftir að nýr pólitískur meiri hluti hefði orðið til hér í þinginu en ekki notað til að stöðva afgreiðslu málsins og kalla á að það væri aftur tekið til þinglegrar meðferðar. Það er einfaldlega sóun á tíma og kröftum fjölda fólks og algerlega óboðlegt fyrir Alþingi, ef það vill láta bera virðingu fyrir sér, að bera jafnlitla virðingu fyrir tíma og kröftum annars fólks og þessi málsmeðferð ber með sér.

Það er fleira í tengslum við innleiðingar á EES-gerðum sem við þurfum að huga að í þessu sambandi. En áður en ég skil við það hversu sein við erum oft að þessu þá eru nú kannski sérstaklega tvær gerðir sem ástæða er til að nefna enn og aftur. Það eru vinnumarkaðsgerðirnar frá árinu 2000 sem nú árið 2014 eru enn ekki komnar í íslensk lög — þær snúa að jafnri stöðu fólks á vinnumarkaði án tillits til fötlunar, aldurs eða annarra slíkra þátta — og eins bannið við mismunun. Það er okkur Íslendingum til vansa að hafa ekki klárað grundvallarmannréttindagerðir af þessu tagi og að réttur manna í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu sé betri í þessum þáttum sem við höfum viljað telja okkur standa framarlega í, þ.e. þeim þáttum sem lúta að mannréttindum og réttindum fólks á vinnumarkaði. Það er dapurlegt að við skulum um þessar gerðir vera á eftir þjóðum sem við hefðum haldið að við stæðum miklu framar í báðum þessum málaflokkum. En allt um það.

Það er síðan tilurð málsins og þessi staða okkar sem orðin er í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem veldur vaxandi áhyggjum. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var spurður að því, vegna þess að Bretar hafa ýmsar athugasemdir og efasemdir um samstarfið innan Evrópusambandsins, hvort hann teldi koma til greina fyrir Bretland að vera ekki aðili að sambandinu sjálfu heldur taka þátt í samstarfinu á Evrópska efnahagssvæðinu því að það væri svona allt fyrir ekkert eins og nefnt var í umræðunni fyrr í dag. Bretar hefðu þá aðgang að markaðnum, að viðskiptaþætti samstarfsins, en væru ekki aðilar að öðrum þáttum, þ.e. hinu pólitíska samstarfi, að samstarfinu um löggjöfina og samstarfinu um ráðherraráðið. Skemmst er frá því að segja að leiðtogi breskra íhaldsmanna og forsætisráðherra Bretlands gaf algert afsvar um þetta þó að miklar efasemdir séu í hans flokki um Evrópusambandið.

Hann orðaði það svo að ekki kæmi til greina að Bretlandi yrði stjórnað með faxtæki frá Brussel. Hvað átti forsætisráðherra Bretlands við með því? Jú, hann vísar til þess að þau lönd sem eins og við eru ekki aðilar að Evrópusambandinu og því samstarfi sem þar fer fram en eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið taka við mjög miklu af þeirri löggjöf sem hin ríkin ákveða að hafa. Við tökum einmitt við löggjöfinni, eins og David Cameron lýsti svo ágætlega í þessari mynd, í gegnum faxtæki frá Brussel. Við fáum sendar hingað þær gerðir sem við eigum að innleiða og við fáum ákveðnar dagsetningar á því hvenær við eigum að vera búin að innleiða þær. Við erum eins og börn í skóla sem fá fyrirmæli frá kennaranum sínum um að þau eigi að vera búin að skila verkefni á tilteknum degi. Þeim mun grætilegra er auðvitað að við skulum ekki standa okkur betur en raun ber vitni í því að skila þeim þó að minnsta kosti á réttum tíma. En þessi er staða okkar núna. Við bara tökum við þessari löggjöf sem aðrir ákveða, höfum ekkert um hana að segja á fyrri stigum, eigum engan þátt í því að móta hana. Það er auðvitað hægt að hafa efasemdir um að það sé að öllu leyti sjálfstætt þjóðríki sem stendur þannig að lagasetningu sinni að það fái hana bara senda í pósti frá öðrum ríkjum.

Þá stöðu þurfum við að ræða frekar hér, sérstaklega þegar við erum komin í þá stöðu að vera ekki einungis sein í því að standa við þessar skyldur okkar heldur geta ekki í veigamiklum þáttum staðið við hluta af þeim eins og nú virðist vera með gjaldmiðilinn okkar og einn af þessum fjórum meginþáttum í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið, sem er fjórfrelsið, það er frjálst flæði fjármagns, sem við virðumst hvorki nú né nokkurn tíma í framtíðinni geta uppfyllt heldur þurfum að vera með viðvarandi bindiskyldu á erlent fjármagn, viðvarandi takmarkanir á heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta annars staðar á markaðnum o.s.frv. Það er auðvitað býsna dapurlegt ef staða okkar er orðin sú varanlega.

En aftur að málinu. Efnislega eru það tvö atriði í þessari 1. umr. sem maður hefur kannski einkanlega áhyggjur af. Þær áhyggjur varða einmitt það atriði sem hæstv. ráðherra er að breyta frá málinu eins og það var lagt fram á síðasta kjörtímabili. Það er þessi C-flokkur, að flytja stjórnsýsluna með honum til sveitarfélaganna. Þar höfum við áhyggjur af því hversu hægt sveitarfélögin hafa verið að þróast hjá okkur í átt til sameiningar og ég kem að því á eftir. Hitt áhyggjuefnið er að hér er verið að flækja kerfið.

Sannarlega er þetta gert undir formerkjum einföldunar, að það sé hægara fyrir þá sem sýsla með einfalda framkvæmd, sem flokkast þá í C-flokkinn, að leita til síns sveitarfélags frekar en að leita til Skipulagsstofnunar. Ég held að það sé misráðið og alls ekki hugsað til enda. Með því að flokka framkvæmdirnar með þessum hætti og hafa ólíka aðila til að sækja til þá hygg ég að fyrir mörgum sé kerfið orðið miklu flóknara og óljósara hver ber ábyrgð og á að fjalla um. Þetta skapa nýjar spurningar í ferlinu. Fellur þetta undir þetta eða fellur þetta undir hitt? Á ég að tala við Pétur eða Pál, Heródes eða Pílatus? Þetta atriði held ég því að sé alls ekki til bóta í ferlinu. Við erum ekki nema 0,3 milljónir í þessu landi og þó býsna öflugir einstaklingar fylli þá þjóð erum við ekki svo fjölmenn að við eigum að vera með ótrúlega margar stofnanir og ótrúlega margar leiðir að fara í stjórnsýslunni og ólíka aðila til að fara með sams konar mál. Við eigum ekki að flokka mál í marga flokka; þessi flokkur á að fara hingað og hinn flokkurinn á að fara þangað.

Ég held að við þurfum að leggja áherslu á það, Íslendingar, og kannski ekki síst í þessum málum, framkvæmdarmálunum, að þessi rammi sé sem einfaldastur og skýrastur og öllum sé ljóst hver það er sem fer með málaflokkinn og hvert á að leita með mál innan hans, nema algerlega sérstakar og miklar röksemdir séu fyrir öðru þá sé það bara einn aðili sem haldi utan um mál og afgreiði þau. Ég tel því að málið hafi verið miklu betra eins og það kom fram á vetrarþinginu 2012–2013 þar sem gert var ráð fyrir að þessi flokkur væri bara hjá Skipulagsstofnun eins og aðrir.

Hitt atriðið er áhyggjur af sveitarfélögunum og þróuninni þar í átt til sameiningar sem aðeins bar á góma hér áðan í tengslum við ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Sannarlega varð hér ákveðin þróun í átt til einföldunar og eflingar á sveitarstjórnarstiginu þegar sveitarfélögin voru vel á annað hundrað hér í landinu og fækkaði á tímabili niður í liðlega 80. En liðlega 80 sveitarfélög í landi sem telur ekki nema liðlega 300 þús. manns er engu að síður allt of mikið. Það er einfalt mál. Við erum ekki að skapa þær öflugu einingar sem sveitarfélögin þurfa að vera með því að hafa þau svona mörg.

Þau hafa vissulega tekið við stórum verkefnum eins og skólamálunum og það hefur tekist ótrúlega vel að efla og bæta ýmsa nærþjónustu með því að færa hana til sveitarfélaganna. En ákveðin stöðnun hefur orðið í þessari þróun og til að stíga nýtt skref í þessa átt og færa fleiri verkefni til nærsamfélagsins og bæta þjónustuna tel ég gríðarlega mikilvægt að við gerum annað áhlaup á það að fækka umtalsvert sveitarfélögum, sameina lítil sveitarfélög, efla þau og gera þeim fært að taka fleiri verkefni til sín og bæta þar með þjónustuna og nærlýðræðið í landinu.