143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir það sem var fyrir mig ákveðin grunnkennslustund í skipulagsmálum, einhverjum anga þeirra. Ég heyri að hún veit alveg nákvæmlega hvað það er sem er að bögglast í kollinum á mér þegar ég spyr um turninn. Ég skil hana svo að þarna sé það deiliskipulagið sem gildi. Það er deiliskipulagið sem gildir og af því að deiliskipulagið var einhvern tímann samþykkt og leyfi gefið fyrir því að byggja þarna turn er burt séð frá viðhorfi fólks, viðhorfi almennings, og mér skilst að það sé þannig núna í borgarstjórn Reykjavíkur að allir stjórnmálaflokkar þar séu á móti turninum, ekkert hægt að gera vegna þess að það eru bótakröfur. Þá getum við sagt: Já, það er gott og blessað, þarna er búið að skýra hvar þú átt bótakröfur. Það er betra fyrir þig að lesa lögin núna en það var áður, þú skilur þau betur. En það er ekki tekið á því sem virðist vera vandinn. Þá erum við kannski komin í árekstur við stjórnarskrána og þá verðum við náttúrlega að víkja, það er alveg ljóst.

Ég upplifi það þannig að það hafi ekki verið neinn vandi að breyta deiliskipulagi þegar auka átti byggingarmagn á lóð. Er það vegna þess að þá eru þeir sem ætla að byggja verktakar, eða hvað við köllum það, og hafa meira vald en almenningur, það er frekar hlustað á þá en almenning þegar við viljum minnka byggingarmagn á lóð? Hver er það sem ákveður hvort deiliskipulagið eigi að hafa sólarlag? Er það gert í lögum? Nú spyr ég. Er það gert í lögum eða er það sveitarfélagið sem ræður því?