143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Ég þakka fyrir andsvarið og tek eindregið undir með hv. þingmanni. Ég held að menn hafi gengið allt of langt í því að skýra eignarréttindi manna á rétti til skaðabóta í þessu efni. Við höfum, eins og ég sagði, sem betur fer verið varfærin almennt í bótarétti í íslenskri löggjöf og eigum að vera það. Þetta tengist raunar líka því sem ég ræddi í andsvari við hæstv. ráðherra fyrr á fundinum um heimildir landeigenda til að annast sjálfir um deiliskipulag sitt.

Ég held að eitthvert fáránlegasta dæmið sem við þekkjum um þetta á undanförnum árum sé um það bil 100 hektara mói einhvers staðar fyrir austan Selfoss sem fór í gegnum einhverjar svona eignarréttindahugmyndir og deiliskipulag á vegum landeigenda sjálfra. Ég held nú að móinn sé enn þá skilgreindur sem landbúnaðarsvæði, en ég hygg að hann hafi gengið kaupum og sölum fimm eða sex sinnum með þessum ímynduðu eignarréttindum, verið teiknaður af framkvæmdaraðilum, hafi á endanum vaxið úr ímynduðu verðmæti upp á innan við eitt hundrað milljónir kr. eða þar um bil í það að vera þriggja milljarða tjón inn í einni af þeim fjármálastofnunum sem fóru á hausinn hér í sumar. Enn þá er þetta bara óbyggður mói og skipulagt landbúnaðarsvæði. Þar hefur aldrei risið ein einasta bygging. Þetta voru ekkert annað en bara fabúlasjónir og skýjaborgir sem einhverjir menn einhvers staðar allt annars staðar á landinu voru með.

Ég held að fara þurfi mjög varlega í því að takmarka rétt skipulagsyfirvalda til að þróa áætlanir og breyta áætlun, en sannarlega auðvitað bæta mönnum sannanlegt tjón. Ef eignir sem búið er að byggja eða eru í byggingu verða eitthvað minna virði, (Forseti hringir.) þá á auðvitað að bæta það, en að bæta einhverjar óbyggða fermetra sem aldrei hafa verið byggðir og stóð kannski aldrei til að byggja, það er (Forseti hringir.) fráleitt.