143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir andsvarið og spurninguna.

Áfram um 11. gr. Það er líklega alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur að í sjálfu sér þarf ekki nauðsynlega að klára vinnu við aðalskipulag á tilteknu kjörtímabili, kannski allra síst í mjög stórum sveitarfélögum þar sem er mikill mannauður á skipulagsdeildum og engin hætta á að þekking og umræða glatist á milli kjörtímabila. En það er engu að síður þannig í sveitarstjórnum, að minnsta kosti oft á tíðum, að það verða nánast heil skipti á fulltrúum frá kjörtímabili til kjörtímabils. Ég get tekið dæmi af þeirri ágætu sveitarstjórn sem ég hef verið með í undanfarin ár, suður í Kópavogi. Þar hittist þannig á núna að einungis tveir af þeim sveitarstjórnarmönnum sem hafa setið í sveitarstjórninni þetta kjörtímabil eru í framboði aftur í sætum sem eru líkleg til þess að verða að sætum sveitarstjórnarmanna. Það geta því legið ástæður að baki því að mikilvægt sé að klára skipulagið.

Hafandi sagt þetta vil ég þó benda þingmanninum á að vinna við aðalskipulag Kópavogskaupstaðar hófst á síðasta kjörtímabili, fluttist yfir á milli kosninga og var kláruð á þessum vetri, ég man ekki nákvæmlega hvort það var fyrir eða eftir áramót. Þannig að það fyrirkomulag sem þingmaðurinn velti fyrir sér er auðvitað alþekkt (Forseti hringir.) og á það frekar við stærri sveitarfélögin.