143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú ítreka ég að ég er ekki sérfróður í efninu en ég hef kynnt mér þetta frumvarp einmitt út af þessu atriði, bótaréttinum, vegna þess að sú staða sem almannavaldið hefur komist í í sveitarfélögum víða hefur verið mér þyrnir í augum. Það eru líka dæmi um það í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík þar sem fasteignareigendur geta skákað í skjóli gildandi áætlana.

Í greinargerðinni er aðeins fjallað um þetta, sérstaklega í skýringum við 20. gr., og síðan er í almennu greinargerðinni ítarlegur og vandaður kafli, 3. kafli á bls. 10–13, sem felur í sér greiningu á norrænni löggjöf. Sérstaklega er fjallað um 20. gr. á bls. 23 og áfram. Á bls. 25 segir, með leyfi forseta:

„Þegar frumvarp það sem síðan varð að gildandi skipulagslögum var til meðferðar á Alþingi lagði Reykjavíkurborg m.a. fram nokkuð ítarlegar tillögur um breytingar á frumvarpinu sem beindust að bótaákvæði frumvarpsins. Í þeim fólst m.a. að settar yrðu sérstakar reglur um gildistíma deiliskipulagsáætlana. Haft skal í huga að samkvæmt gildandi skipulagslögum er deiliskipulagi ekki markaður sérstakur gildistími …“

Síðan er sagt að viss rök séu til að gera þetta en að skipulagsáætlanir séu auðvitað bindandi um landnotkun og feli í sér takmörkun og skyldur fyrir bæði opinbera aðila og einstaklinga. En það liggur fyrir að í hinni almennu umfjöllun um norrænt réttarástand sem ég rakti fyrr, t.d. í Svíþjóð eru þessar reglur almennt tímabundnar. Þess vegna er umhugsunarefni hvort við séum einfaldlega komin þangað (Forseti hringir.) að útfæra þurfi tímabundið gildi slíkra áætlana.