143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á Alþingi er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141. Þessi tillaga kemur hingað samkvæmt lögum um vernd og orkunýtingu landsvæða sem voru samþykkt á Alþingi á síðasta kjörtímabili. Ég sat þá í nefnd sem hét, ef ég man rétt, iðnaðarnefnd og hún hafði það frumvarp með höndum. Við unnum það í nefndinni og í samvinnu við umhverfisnefnd, ég held að ég muni rétt nöfnin á nefndunum á þessum tíma. Það er skemmst frá því að segja að ákaflega skemmtileg, fagleg og góð vinna var unnin í nefndunum við það að gera þær breytingartillögur sem allir voru sammála um að leggja fram við þau lög sem enduðu svo með því að frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum. Það náðist sem sagt allsherjarsamstaða um grunnlögin varðandi rammaáætlun sem við höfum síðan kallað bara rammaáætlun.

Þegar þessi tillaga er skoðuð og kemur til umræðu fer maður að hugsa til þess tíma þegar við vorum að vinna með rammaáætlun. Eitt þingið var það til meðferðar hjá atvinnuveganefnd og þingið þar á eftir en þegar rammaáætlun var kláruð kom hún úr umhverfis- og samgöngunefnd. Það var í framhaldi af þeirri breytingu sem gerð var á nefndaskipan Alþingis.

Það er gaman að fara í þessa upprifjun aftur í tímann, alveg eins og það að eftir ríkisstjórnarmyndun eftir kosningar 2007 setti þáverandi iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson, í samráði við þáverandi umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, aftur af stað vinnu um rammaáætlun. Hún hafði staðið í langan tíma, í fjölmörg ár, þar sem unnið var að því að búa til rammaáætlun á faglegan hátt, taka þetta upp úr hefðbundnu rifrildi og reyna að vinna þetta eins og gengur og gerist hjá siðmenntuðum þjóðum. Það var ákaflega merkilegt.

Það leiddi svo til þess að rammaáætlun var lögð fram eftir mikla vinnu verkefnisstjórnar og að lokum samþykkt á Alþingi. Því miður var ég ekki viðstaddur, var fjarverandi vegna veikinda, en tillagan var sem sagt samþykkt og nú erum við komin að því ferli hér að hæstv. ráðherra leggur fram tillögu um að taka tillögu verkefnisstjórnar — mér sýnist við fyrsta yfirlestur við hafa verið örugglega sammála um að taka Hvammsvirkjun í Þjórsá úr biðflokki sem flokkuð var nr. 29 með samþykktinni 14. janúar 2013. Það var ákveðið að setja þessa virkjun yfir í orkunýtingarflokk. Mig minnir að Hvammsvirkjun sé eitthvað um 60 megavött.

Áður en ég held lengra ætla ég að ítreka það sem ég sagði áðan, mér fannst þetta ferli alltaf mjög spennandi og faglegt og hafði þá von í brjósti að ferlið yrði til þess að um það næðist víðtæk sátt. Ferlið var jákvætt og gott í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það var farið vel yfir og mikil vinna lögð í málið. Margir komu á fund nefndarinnar og margir fengu að tjá sig sem endaði sem sagt með rammaáætluninni sem var samþykkt 14. janúar 2013.

Því miður urðu deilur á Alþingi þrátt fyrir þetta jákvæða ferli sem ég lít á að hafi verið í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég get eiginlega ekki látið hjá líða að taka smástráksskap á það, ég held að það hafi verið vegna þess að mjög óbilgjörn stjórnarandstaða gerði allt sem mögulegt var að gera til að tefja þingstörf, þvælast fyrir málum og skapa deilur. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn þótt ég líti hér í hliðarherbergin. Það voru margir. Ég á enn þá von í brjósti að um þetta geti tekist miklu meiri sátt, að við tökum þetta upp úr hefðbundnu rifrildi og skoðunum og reynum að vinna þetta eins og aðrir gera. Oft hefur verið vitnað til Norðmanna sem við tókum okkar löggjöf dálítið mikið eftir.

Eins og ég segi er þetta lagt til í þessari þingsályktunartillögu. Út af fyrir sig get ég sagt að ég er hlynntur þessari breytingu þótt ég hafi alltaf fyrirvara um frekara nefndarstarf. Ég er nefndarmaður í atvinnuveganefnd og tók eftir að þessi tillaga á að fara þangað. Þar verður tillagan tekin til umfjöllunar og við förum í gegnum hana. Mér sýnist sem hér hafi verið faglega að verki staðið af hálfu verkefnisstjórnarinnar sem leggur þetta til.

Jafnframt vil ég segja að mér finnst umsagnir mjög faglega og skemmtilega settar upp í þessari þingsályktunartillögu þar sem þeim er raðað í raðtöluröð og svo eru tekin ýmis atriði um það sem kom fram í öllu þessu umsagnarferli, það rakið hér og rætt og bent í þessari skrá á það hverjir hafa gert við það athugasemdir eða veitt umsögn. Þá var það jafnt á veg hjá þeim sem vildu setja þetta í nýtingarflokk og hinum sem vildu það ekki. Það eru eðlileg skoðanaskipti og það er lýðræðislegt ferli að allir fái að segja sitt álit. Einhvern tímann þarf samt að höggva á hnútinn og klára málið og það er gert hér.

Í athugasemdum við þessa þingsályktunartillögu stendur að samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 skuli eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég stoppa aðeins við „eigi sjaldnar en“. Mig minnir nefnilega að þessum orðum hafi verið breytt í meðförum nefndarinnar um frumvarpið sem seinna varð að lögum. Ef ég man rétt stóð í frumvarpinu „á fjögurra ára fresti“.

Ég segi þetta, virðulegi forseti, vegna þess að ef verkefnisstjórnin vill vinna eins og hún hefur gert, taka einstaka þætti út úr og leggja þetta til, finnst mér ekkert óeðlilegt að einstök svæði komi hér inn, þau verði rædd, fái lýðræðislega umræðu og að lokum lýðræðislega atkvæðagreiðslu. Þá næst niðurstaða.

Ég skal alveg viðurkenna að ég gat í nefndarvinnunni svolítið sveiflast til með einstaka virkjunarkosti sem talað var þar um eftir gestakomum. Mér er til dæmis mjög minnisstætt að ég skipti eiginlega algerlega um skoðun um Eldvörpin sem slík, ég taldi að þau ætti að láta vera, að þau ættu að vera annars staðar en í nýtingarflokki og mig minnir að svo hafi verið með Sveifluháls líka. Ég held að ég sé samkvæmur sjálfum mér, virðulegi forseti, að hafa tjáð mig um þá virkjun sem og Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun sem eru í Þjórsá. Ég get líka sagt að eftir ferð atvinnuveganefndar um Suðurland þar sem þessi svæði voru meðal annars skoðuð get ég líka lýst því yfir að ég var mjög heillaður af Urriðafossi og var eiginlega á þeim tímapunkti þeirrar skoðunar að það ætti jafnvel bara að láta Urriðafoss vera, hann ætti að fara í verndarflokk. Ég man eftir að ég spurði fulltrúa Landsvirkjunar: Hvað ef útstreymið verður tekið miklu ofar í Urriðafossi þannig að hann náist? Auðvitað minnkar þá orkugetan en mér fannst ekki mikið um svör. Það var eitt atriði.

Virðulegi forseti. Við þessa fyrri umr., þær tíu mínútur sem þingmönnum eru ætlaðar, vildi ég aðeins taka þátt, sérstaklega vegna þess að þetta kemur til þeirrar nefndar sem ég á sæti í eins og áður hefur komið fram. Ég er mjög hlynntur þessu sem hér kemur fram og lýsi yfir stuðningi eins og ég gerði áðan en auðvitað með fyrirvara um frekari nefndarvinnu.