143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson innir mig eftir hér, undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti að vera tiltölulega auðvelt að leggja fram mál af þessu tagi, fá þau rædd í þingsal og koma þeim síðan til fagnefndarinnar. Ég verð að segja að þar sem öll rökin hafa verið allan tímann með og móti þeim kostum sem eru undir í rammaáætlun mundi ég algjörlega treysta fagnefndinni til að fara faglega yfir málið. Ég sé bara ekki að hv. atvinnuveganefnd sé með þá forsögu í málinu að geta almennilega tekið á því af sömu festu og gagnsemi.

Ég held hins vegar að það væri eðlilegt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd bæði hv. atvinnuveganefnd um álit á málinu ef hún teldi kost á því, þá væntanlega þeim þáttum málsins sem snúa beint að þeirri nefnd. Það væri ekkert óeðlilegt við það (Forseti hringir.) en auðvitað verður fagnefndin að kveða upp úr um þetta. Ég treysti fagnefndinni til að gera það vel.