143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

samstarf á norðurskautssvæðinu og staða Íslands.

388. mál
[16:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að þetta sé grafalvarlegt mál og sé að þróast með heldur óheillavænlegum hætti. Hæstv. ráðherra sagði réttilega að breytingar á hitastigi sjávar gætu í framtíðinni leitt til þess að fiskstofnar leituðu út úr lögsögunni. Ég hugsa að hæstv. ráðherra þætti fróðlegt að sjá kortin hjá Hafró og raunar líka hjá ýmsum norskum fræðimönnum, m.a. einum sem hélt hér fyrirlestur árið 2012 um möguleika á færslu fiskstofna. Þá sæju menn að ekki er útilokað að loðnan leiti svo langt norður að hún lendi í þessum almenningum sem enginn stýrir en þessi fimm ríki hafa nú tekið að sér með engum rétti.

Mig langar að vísa til þess að 27. febrúar gáfu þessi fimm ríki út fréttatilkynningu þar sem þau sögðu að þau hefðu bannað til bráðabirgða fiskveiðar í þeim almenningi sem hér um ræðir. Hvaða rétt hafa þau til þess? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Með hvaða hætti brást íslenska ríkisstjórnin við þessari yfirlýsingu frá 27. febrúar, sem gefin er út af sjávarútvegsráðherra Kanada fyrir hönd ríkjanna fimm?