143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tollfrjáls útflutningur landbúnaðarafurða.

560. mál
[16:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil að sjálfsögðu byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem varðar mikilsverð atriði í utanríkisviðskiptum Íslands, þ.e. möguleika íslensks landbúnaðar á að flytja út landbúnaðarafurðir tollfrjálst. Eins og kunnugt er er leitast við það í fríverslunarsamningum sem Ísland gerir að tryggja fullt tollfrelsi við innflutning þeirra til annarra ríkja.

Hvað varðar markaðsaðgang fyrir unnar landbúnaðarvörur gilda ákvæði EES-samningsins, en hann sætti síðast endurskoðun um þetta atriði árið 2001. Hafnar voru viðræður um aðra endurskoðun sem voru langt komnar árið 2008 en var ekki lokið, m.a. vegna atburða haustsins það ár. Í 19. gr. EES-samningsins er gert ráð fyrir tvíhliða samningi milli Íslands og ESB hvað varðar viðskipti með hefðbundnar landbúnaðarvörur, svo sem grænmeti, kjöt og mjólkurvörur, en hér undir falla flestar helstu útflutningsafurðir Íslands í landbúnaði. Í gildi er tvíhliða samningur frá árinu 2007 þar sem kveðið er á um ívilnanir, en með þeim samningi var íslenskum framleiðendum meðal annars tryggður réttur til að flytja inn tollfrjálst til Evrópusambandsins 1.850 tonn af lambakjöti og 380 tonn af skyri gegn ívilnun við innflutning til Íslands fyrir tilteknar vörur frá ESB.

Eins og fyrirspyrjanda er kunnugt óskuðu samtök framleiðenda árið 2011 eftir því við stjórnvöld að kannað yrði hvort hægt væri að auka við umræddan innflutningskvóta. Í kjölfarið hófust viðræður við Evrópusambandið um endurskoðun gildandi samninga, bæði um unnar og hefðbundnar afurðir. Hluti af þessari samningagerð nú er samningur um gagnkvæma vernd heita á landbúnaðarvörum. Standa vonir til þess að ljúka megi samningum í haust.

Hvað varðar kröfugerð íslenskra stjórnvalda í viðræðum er almennt lögð á það áhersla að tollalækkanir séu á gagnkvæmnisgrundvelli, en að þessu sinni er notast við svokallaða neikvæða lista. Þar eru einungis listaðar upp vörur sem áfram munu bera toll í viðskiptum ríkjanna. Aðrar vörur munu ekki bera tolla.

Varðandi þær vörur sem áfram munu bera tolla er í nokkrum tilvikum samið um tollfrjálsa innflutningskvóta og í því efni má almennt gera ráð fyrir að við værum að horfa á hækkun á þeim kvótum sem nú þegar eru fyrir hendi. Þannig fer Ísland fram á stærri kvóta fyrir sínar meginútflutningsvörur og kröfur Evrópusambandsins snúa að aukinni fríverslun en einnig stækkun flestra núgildandi tollkvóta.

Náist niðurstaða á þessum nótum tel ég það mikilvægt skref fyrir báða aðila sem mun styðja við mikilvægustu útflutningshagsmuni okkar í landbúnaði á sama tíma og opnað er fyrir frekari innflutning til Íslands á hagstæðum kjörum.