143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í einnar mínútu andsvörum gefst ekki tími til að ræða málin, enda er það ekki tilgangurinn, heldur eingöngu til að spyrja hæstv. ráðherra nánar. Á eftir þegar ég flyt ræðuna mína fjalla ég um efni þessa frumvarps.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 10, þar sem verið er að ræða um þann afslátt sem settur var inn í meðförum atvinnuveganefndar til að koma til móts við skuldsett fyrirtæki vegna kvótakaupa síðustu ára. Þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Ástæðulaust er að rekja þá umræðu hér, en athygli er vakin á því að á síðustu missirum hefur komið upp sú gagnrýni að sum þeirra fyrirtækja sem njóta lækkunarréttarins hafi fengið „ýmsar leiðréttingar“ hjá lánastofnunum sem geri það að verkum að fjárhagsaðstæður þeirra séu nú breyttar frá því sem var árið 2012.“

Hvað eigið þið við með „ýmsum leiðréttingum“?