143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við fengum hér sýnishorn af því hvernig hv. þm. Jón Gunnarsson endursegir ræður annarra. Hann sagði að ég hefði talað um að það væri í lagi og ætti að skattleggja þetta undir drep. Það sagði ég aldrei í minni ræðu. Hann sagði að ég hefði sagt að þetta væru stórkostlegir afslættir. Það sagði ég ekki. (JónG: Þú ert að gefa það í skyn.) Ég færði fyrir því rök, frú forseti, að það væri ekki undirbyggt í þessu frumvarpi að þörf væri fyrir svona gríðarlega lækkun veiðigjalda í tvígang eins og þessi ríkisstjórn hefur nú staðið fyrir eða ætlar sér að standa fyrir, fyrst í júní síðastliðnum og aftur nú. Það væri orðið ansi langt gengið og það væri ekki sannað eða sýnt, að mínum dómi, að afkoma sjávarútvegsins hefði versnað þannig að fyrir því væri ástæða.

Hv. þingmaður blandaði atvinnuleysinu á síðasta kjörtímabili inn í þetta mál og það var auðvitað orðið á okkar ábyrgð að við hefðum greitt 80–90 milljarða í atvinnuleysisbætur. Úr því að hv. þingmaður spyr ýmiss konar spurninga ætla ég að prófa að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson á móti: Áttum við sem sagt ekki að greiða 12–15 þús. atvinnulausum Íslendingum eftir hrun Sjálfstæðisflokksins neinar atvinnuleysisbætur? Áttum við að láta þá lifa á loftinu? Mér finnst að hv. þingmaður eigi stundum að skammast sín þegar hann tekur svona hluti inn í umræður um óskyld mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Það hafi verið alveg sérstök óráðsía að greiða atvinnuleitendum á Íslandi atvinnuleysisbætur á síðasta kjörtímabili. Hverjir báru ábyrgð á því að þeir voru atvinnulausir, urðu það eftir hrunið 2008, hv. þingmaður? Það varst þú. Það var íhaldið, það var Sjálfstæðisflokkurinn þinn.