143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tala hér sem fulltrúi Samfylkingarinnar, fulltrúi jafnaðarmannaflokks Íslands, og legg áherslur í anda jafnaðarstefnunnar.

Við aðhyllumst réttláta og sanngjarna skattheimtu til að fjármagna opinberan rekstur og mennta- og heilbrigðiskerfi en það eru þau kerfi sem eru grundvöllur þess að hér þrífist gott og blómlegt mannlíf, að hér sé jöfnuður og jafnt aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Ég skammast mín ekkert fyrir það, herra forseti, að vera mjög hlynnt því að innheimta skatta sé þess þörf og auka jafnvel skattheimtu til að þessi kerfi mæti sem best þörfum okkar allra og tryggi jöfnuð.

Við jafnaðarmenn aðhyllumst blandaðan markaðsbúskap og þegar kemur að atvinnulífinu, þegar kemur að stóru atvinnugreinunum sem grundvallast á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, viljum við að markaðurinn ráði för. Við viljum setja leikreglurnar sem aðilar eiga að fara eftir, við viljum tryggja umhverfi til rannsókna og framþróunar í greinunum og við viljum tryggja mjög öflugar eftirlitsstofnanir. Og svo kann að vera í einhverjum tilfellum að við viljum tryggja ákveðin byggðasjónarmið eða ná ýmsum markmiðum sem við teljum og vitum að markaðurinn mun ekki ná fyrir okkur. Þá geta verið ýmsar leiðir með inngripum ríkisins til hliðar til að ná þeim markmiðum. Það er auðvitað alltaf snúið en til þess erum við hér, að finna út úr því.

Nú vill svo til að hægri flokkunum á Íslandi, Sjálfstæðisflokknum og fylgitungli hans, Framsóknarflokknum, er mjög illa við markaðslausnir í atvinnulífinu. Það virðist vera fátt sem þeir skilja verr og er verr við. Þar ræður pilsfaldakapítalisminn ríkjum og þeim hugnast vel að sitja í nefndum og dútla við reiknireglur og finna út hvernig þeir geta hlíft auðstéttunum í landinu við því að greiða eðlilega hlutdeild til samfélagsins.

Varðandi stefnu Samfylkingarinnar segir einmitt í landsfundarsamþykkt flokksins frá 2. febrúar 2012:

„Álagning veiðigjalds sem tekur mið af reiknaðri auðlindarentu í sjávarútvegi er skref í þá átt að skipta umframarðinum sem sérleyfi til nýtingar verðmætrar auðlindar í þjóðareign skapar. Mikilvægt er að næstu skref í sjávarútvegsmálum taki mið af grundvallarforsendum auðlindaákvæða nýju stjórnarskrárinnar.“

Þá kemur að nýju stjórnarskránni sem meiri hluti þjóðarinnar vill að við gerum að stjórnarskrá Íslands eftir langt og fagurt ferli hér á síðasta kjörtímabili og með þjóðaratkvæðagreiðslu sem enn er í gildi frá 20. október 2012. Og hvað gerðist í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu? Þar fengu kjósendur mjög beint tækifæri til að segja hug sinn. Þeir svöruðu spurningum, fyrst og fremst hvort þeir vildu að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá yrðu undirstaða nýrrar stjórnarskrár og svo voru sex spurningar.

Spurning nr. 2 hljóðaði svo:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, lýstar þjóðareign?“

Það voru ekki bara þeir sem vildu nýja stjórnarskrá sem sögðu já við þeirri spurningu, það var meginþorri kjósenda, 83% kjósenda vildu þetta, 82,9% kjósenda. Það ætlar að verða þrautin þyngri að mæta þeim skýra vilja kjósenda á Íslandi, kjósenda sem svíður það að sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar séu annaðhvort nýttar í raforkusamninga, sem eru til skammar, fyrir alþjóðleg álfyrirtæki eða í gjafagjörningum eða allt of lágu gjaldi fyrir veiðiheimildir úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind.

Auðlindir eru ekki takmarkalaus uppspretta auðs. Þær eru þó lindir auðs eins og orðið ber með sér. Þeir sem nýta þær þurfa að fjárfesta, taka áhættu, stunda oft erfiðan rekstur og eiga auðvitað að njóta arðs af því. En auðlindina sem nýtt er til að geta náð fram þeim hagnaði sem verður í greinunum verður að verðleggja út frá eðlilegum markaðsforsendum, ekki á grundvelli einhverra „spúkí“ samtryggingarleiða.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir það hvernig breytingarnar með nýrri ríkisstjórn lækka veiðigjöld á Íslandi um 18,8 milljarða á þremur árum. Eins og fram kom í stefnuskrá Samfylkingarinnar teljum við þessa leið til að ákvarða veiðigjöld tímabundna leið því að sjálfsögðu eiga veiðiheimildir að fara á markað og verð þeirra á að ákvarðast í samkeppni milli þeirra aðila sem ætla að nýta þær. Þá losnum við við umræður um það þar sem þingmenn sitja og víla og díla með reiknireglu og taka á móti, eins og við þekkjum sem hér höfum setið, útgerðarmönnum sem koma og tala fyrir sínum fisktegundum.

Alþingi er ekki markaður með fiskveiðiheimildir. Alþingi á að setja reglur fyrir samfélagið.

Í sumar var eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar að létta álögum af útgerðinni. Það þurfti ekki að bíða boðanna, á örfáum dögum voru komnar 35 þús. undirskriftir gegn þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Það var áskorun til forseta lýðveldisins, sem var þekktur fyrir það að svara lýðræðiskalli þjóðarinnar, um að undirrita ekki lögin um lækkun veiðigjalda.

Þann 9. júlí 2013 lýsti forseti lýðveldisins því yfir að hann mundi ekki verða við bón þeirra sem skrifuðu undir heldur undirrita lögin. Hann taldi ekki um eðlisbreytingu að ræða, ekki grundvallarbreytingu, og það væri hættulegt að fást við skattlagningu, enda sjáum við að ríkisstjórnin meðhöndlar þetta gjald af auðlindinni sem hvern annan skatt.

Þarna greindi forsetinn ekki kall þjóðarinnar á réttlæti. Fyrir alla sem hafa fylgst með umræðunni, þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 og langvarandi deilumálum um auðlindina, úthlutun hennar og gjaldið fyrir hana snerist undirskriftasöfnunin auðvitað um það að fólki var misboðið að stjórnvöld kæmust upp með að veita slíkan afslátt á sameiginlegum eignum okkar. Þar held ég að fólk hafi almennt ekki verið að pæla í því hvort kílóið átti að kosta 20 eða 30 kr., það vildi bara að stjórnvöld fengju skýra leiðsögn um það að sameiginlegar eignir okkar og auðlindir má ekki veita með afslætti til einstakra starfsgreina.

Þetta var mjög bagalegt að mínu mati því að nú sjáum við að ríkisstjórnin, hægri stjórnin unga, beitir svokallaðri „salamí“-aðferð. Það var byrjað á svolítið stórum bita og nú er komið að næstu sneið. Hún er ekki jafnstór, þetta er ekki nema milljarður, heill milljarður, þúsund milljónir. Við sem erum í velferðarmálum og ýmsum menntamálum vitum að það er hægt að gera rosalega mikið við þúsund milljónir. Á næsta ári eru þetta tæpar 2 þús. milljónir en þá horfum við fram hjá því að á þremur árum eru þetta tæplega 19 milljarðar, 19 þús. milljónir, sem íslenskur ríkissjóður og íslenskur almenningur þar með verður af.

Það er alvarleg staða fyrir okkur. Nú hefur verið rætt um hvað gerðist á síðasta kjörtímabili og hv. þm. Jón Gunnarsson trompaði, hann var kominn í árið 1990 og Alþýðubandalagið. Við getum ferðast til og frá í tíma og það er ýmislegt sem gerðist á síðasta kjörtímabili sem hefði eflaust þurft að fara fram með farsælli hætti en við erum fulltrúar kjósenda sem með afgerandi hætti hafa lýst yfir vilja sínum. Hvað sem hefur gerst í fortíðinni þá er það verkefni okkar að tryggja sanngjarnan arð þjóðarinnar af auðlindum sínum. Það er alvarlegt þegar ríkisstjórnin sem og sjálfur öryggisventillinn, forseti lýðveldisins, skynja ekki þetta ákall, skynja ekki hvernig það brennur á fólki, ranglætið í þessu.

Við í minni hlutanum hljótum að verða að hugsa okkar gang. Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að eðlileg hlutdeild þjóðarinnar í arði af auðlind sinni verði ekki sneidd niður í salamísneiðum, missiri fyrir missiri, þangað til afskaplega lítið er eftir og hinni ungu hægri stjórn hefur tekist að færa allt í fyrra horf í fiskveiðistjórn eins og hún og fulltrúar hennar er að reyna í flestum öðrum málaflokkum?

Síðasta sumar var afgerandi. Stór biti var tekinn síðasta sumar og þar voru kjósendur sviknir um að fá að segja sína skoðun.

Fram undan er meðferð þessa máls í þinginu og ábyrgð þingmanna á því að ekki verði allur arðurinn (Forseti hringir.) af auðlindinni smám saman tekinn af almenningi í þessu landi.