143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[18:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum ekki alveg sammála um hvaða aðferðafræði er best í þessum efnum, það vitum við auðvitað, en ég held eigi að síður að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því að sú breyting sem hér er gerð á innheimtu gjaldanna færir okkur í raun og veru fjær þeim skilningi að við séum á einhvern hátt að skila hagnaði af auðlindinni til þjóðarinnar, að skila hagnaðinum af auðlindinni inn í sameignina. Við hv. þingmaður erum hins vegar sammála um markmiðið sem er einmitt það að þjóðin eigi að njóta sameiginlega arðs af auðlindinni, hvernig sem við förum að því að ná því markmiði.

Hv. þingmaður sagði í svari sínu að hann teldi að ríkisstjórnin færði okkur fjær því markmiði. Nú hafa allir stjórnmálaflokkar lýst því að þeir styðji það að auðlindirnar verði á einhvern hátt skilgreindar sem sameign í stjórnarskrá. Menn hafa deilt dálítið um hvernig eigi að orða það og af einhverjum ástæðum, þó að þetta hafi verið í umræðunni mjög lengi, hefur aldrei náðst að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Ef við lítum til að mynda til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sem haldin var 2012, þá var þjóðin í landinu helst sammála um að mikilvægast væri að ákvæði um sameiginlegt eignarhald á auðlindum færi í stjórnarskrá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að bak við þessa lækkun, sem hefur margar hliðar, endurspeglist hreinlega pólitískur ágreiningur um það hvernig við skilgreinum auðlindirnar, hvernig við ræðum um eignarhald á auðlindunum og hvernig við skilgreinum þjóðareign á auðlindum.