143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[19:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er náttúrlega býsna skýr í þessu máli og ýmsum öðrum.

Á tekjuhlið ríkissjóðs hafa tvö mál verið í algerum forgangi hjá stjórnarflokkunum.

Annað er að afnema auðlegðarskattinn sem var sannarlega tímabundinn en hann var til jafn langs tíma og gjaldeyrishöftin. Þau hafa þeir framlengt en ekki auðlegðarskattinn og sparað þannig 5 þús. efnamestu fjölskyldunum í landinu eina 10 milljarða og lagt þá á aðra landsmenn.

Hitt er að ná veiðigjöldunum niður um svipaða fjárhæð. Ætli þau séu ekki núna að öllu samanlögðu orðin 10 milljörðum lægri en upp var lagt með? Það eru þá 10 milljarðar sem leggjast einfaldlega á aðra landsmenn. Það verður ekki gert með öðrum hætti.

Þetta er augljóslega forgangsröðunin.

Það er eðlilegt að menn komi með málið svona seint og reyni að fá það á dagskrána með afbrigðum vegna þess að allur málatilbúnaðurinn þolir ekki mikla umfjöllun. Það sem þessar tillögur stranda á er svo veikt. Þar eru m.a. atriði sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sjálfur gagnrýnt harðlega. Þegar menn höfðu ekki tíma til og voru ekki í aðstöðu til að afla nýrri gagna gagnrýndi sjávarútvegsráðherra það harðlega og sagði að verið væri að byggja á tveggja ára gömlum gögnum. Nú, þegar fyrir löngu var búið að gera ráðstafanir til þess að Hagstofan gæti aflað nýrri gagna og þyrfti eingöngu atbeina ráðherrans til að sækja þau gögn, hefur hann ekkert aðhafst í því en kemur síðan sjálfur inn með frumvarp um gjöld fyrir næsta veiðiár byggt á jafn gömlum gögnum og hann gagnrýndi fyrri ríkisstjórn fyrir. Auðvitað vilja menn ekki að svona málatilbúnaður sé í umfjöllun lengi.